150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir fyrra andsvar. Ég finn að það er vilji innan ráðuneytisins til þess að gera vel við þennan hóp og ég fagna því innilega. Það er kannski þess vegna sem ég kem bónleiðina hingað í pontu, ekki síst vegna 6. kafla í greinargerðinni þar sem talað er um að með þessu samræmda móttökukerfi sé unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins og nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum en jafnframt sjá til þess að það fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum.

Hæstv. ráðherra svaraði skilmerkilega spurningunni um það að hér er bara verið að ræða um þá sem hafa fengið stöðu flóttamanns á Íslandi. Ég átta mig á því. Ég ætla samt sem áður að leyfa mér að koma hingað bónleiðina. Ég tel að með því að taka á móti fólki sem leitar hér verndar af virðingu, sanngirni og jafnræði, óháð því hvað verður um það fólk, munum við mögulega minnka hið varanlega tjón sem ljóst er að einstaklingar sem eru á flótta verða fyrir. Þess vegna beini ég þeirri áskorun til hæstv. félagsmálaráðherra að gera allt sem í hans valdi stendur, í allri þessari vinnu í félagsmálaráðuneytinu, þar sem vinnumarkaðsmálin eru m.a., en ekki síður innan ríkisstjórnarinnar, og tala máli þeirra sem bíða hér mánuðum og jafnvel árum saman eftir vernd; að þeir fái notið þátttöku í samfélaginu, megi taka á móti fólki í heimsókn o.s.frv. Þetta skiptir miklu máli.