150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við tölum hér enn og aftur um útlendingamál, mikilvægan málaflokk sem oft fer út í einhvers konar tegund af blóðhita og er oft mjög mikið um misskilning í þeirri umræðu almennt. Það ríkir mikill misskilningur um málefni útlendinga almennt, um lagaumhverfið, um rétt fólks og um stefnu stjórnvalda, bæði þessarar ríkisstjórnar og annarra. Í slíku umhverfi er svolítið erfitt að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu með einhverjum tveimur sem hafa ólíka sýn jafnvel þó að sú sýn sé í öllum meginatriðum hin sama eða í það minnsta nógu lík til að þeir einstaklingar gætu náð saman ef þeir skildu allar staðreyndir málsins á sama hátt, og ef ekki væri fyrir hinar ýmsu bábiljur sem plaga málaflokkinn almennt.

Þetta frumvarp er gott dæmi um jákvæða viðleitni sem ég hygg að allir ættu að vera sammála, sama hvar þeir standa í útlendingamálum í sjálfu sér, fyrir utan einstaka útfærsluatriði eða eitthvað því um líkt eða áhyggjur af því að ekki sé gert ráð fyrir kostnaði þegar gera þarf ráð fyrir kostnaði. Ég hygg að samræmd móttaka flóttafólks sé í eðli sínu af hinu góða, sama hvort manni finnist vera of mikið af flóttamönnum eða útlendingum eða hvort manni finnist of lítið af þeim eða hvað. Þetta er sama einkenni og ég sé á öðru plaggi frá Sameinuðu þjóðunum, samþykkt Sameinuðu þjóðanna um farendur, sem var til mikillar umræðu hér á dögunum, og þar birtist þessi misskilningur sem ég talaði um afskaplega skýrt og afskaplega hávært. En fullyrðingarnar sem fengu að flakka um það góða plagg voru satt best að segja algerlega út úr kú. Var fullyrt í umræðunni ítrekað og hátt að um væri að ræða plagg sem á einhvern hátt myndi skuldbinda Ísland, ef það væri lagalega bindandi, til þess að afnema tjáningarfrelsi og taka upp sharía-lög og ýmislegt þaðan af vitfirrtara. Auðvitað er ekkert slíkt að finna í plagginu sjálfu heldur hlýtur að hafa þurft annaðhvort einbeittan vilja til þess að misskilja plaggið eða einhvern óstjórnlegan ótta, til að komast að þeirri fáránlegu niðurstöðu sem ég var hér að lýsa.

Þvert á móti var um að ræða plagg sem svo gott sem öll þjóðríkja heimsins, meira eða minna, komu sér saman um með einstaka undantekningum. Kannski er fyrst og fremst að nefna Bandaríkin undir þeirri — ég biðst forláts, virðulegi forseti, ég bara kann ekki að orða það öðruvísi — gölnu forystu sem þar ræður ríkjum. Hinar háværu raddir þeirra sem eru óttaslegnir vegna útlendinga og sér í lagi flóttamanna gerðu að verkum að leiðtogar ýmissa þjóðríkja fóru að efast um þá samþykkt sem sömu forsprakkar notuðu síðan sem rök fyrir því að hafna henni. Allt mjög furðulegur málflutningur, virðulegi forseti, ef ekki væri fyrir þennan fyrrnefnda misskilning sem á köflum virðist beinlínis vera viljandi.

Það er eitt sem við þurfum að átta okkur á þegar kemur að farendum, kvótaflóttamönnum, hælisleitendum, fólki sem af einhverjum ástæðum flyst milli landa, og það er að þótt við gætum alveg í prinsippinu sett upp einhvern risavaxinn vegg á við þann sem Donald Trump dreymir um og bara lokað landinu, og passað að hingað kæmi enginn, myndi það ekki spara peninga. Það myndi ekki auka veg Íslands. Um það held ég að allir séu sammála. Það er hins vegar afskaplega margt fólk sem hefur áhyggjur af hinu svokallaða flóði. Það eru áhyggjur sem hægt er að rekja til allrar umræðu um útlendinga frá öllum tímum, held ég, og sennilega frá öllum stöðum meira eða minna með einstaka undantekningum. Þegar EES-samningurinn var samþykktur hér höfðu t.d. sumir miklar áhyggjur af því að hingað kæmi flóð Ítala, að milljónir Ítala myndu skyndilega á einum degi ákveða að fara til Íslands, landsins sem heitir eftir ísnum. Fólk á Ítalíu léti sig dreyma um að koma hingað af ástæðum sem, að mér vitandi, voru ekki útskýrðar þá og hafa ekki verið útskýrðar enn. Tilfellið er það með manneskjur, almennt en ekkert alltaf, og það getur sá sem hér stendur vissulega sannað, að þær vilja almennt vera heima hjá sér, þær vilja almennt búa í landi þar sem þeirra mál er talað, þar sem þær skilja samfélagið, þar sem samfélagsgildin ríma við þeirra eigin gildi, þar sem þær geta gengið að því sem vísu sem þær þekkja til almennt. En síðan búum við ekki í fullkomnari heimi en það að fólk fær ekki að njóta lífsins og þessara skilyrða á sama tíma. Slík dæmi eru t.d. borgarastríðið í Sýrlandi.

Ég hef ekki heyrt araba, vini mína, dásama veðurfarið á Íslandi hingað til. Ég hef ekki heyrt flóttamenn lýsa því að þá hafi dreymt um að koma hingað áður en þeir þurftu að koma hingað. Ég veit ekki alveg hvaðan fólk fær þá hugmynd að bara með því að leyfa fólki að flytjast milli landa fái skyndilega allir þá flugu í höfuðið að flytjast milli landa. Það er ekki þannig, virðulegi forseti. Það krefst hugrekkis og staðfestu, ákveðins andleg styrks og fjárhagslegs styrks að flytja á milli landa, jafnvel fyrir fólk sem hefur það bara fínt. Það er erfitt, það tekur tíma. Það er vandasamt að setjast að í nýju samfélagi, jafnvel náskyldu samfélagi. Íslendingur sem flytur til Kanada, Íslendingur sem flytur á Íslendingaslóðir í Kanada, mun samt lenda í einhverjum hremmingum þar sem hann mun vonandi með aðstoð vina og vandamanna komast í gegnum. En ég hugsa að flestir Íslendingar í dag telji sig geta flutt til Kanada næstum með því að smella fingri. En þeir gera það fæstir. Af hverju? Vegna þess að þeir vilja vera heima hjá sér. Þeir vilja vera hjá fjölskyldunni sinni, hjá fólkinu sem þeim þykir vænt um. Fólk vill bara vera í sínu samfélagi. Þannig er það almennt.

Nú stöndum við frammi fyrir fordæmalausum áskorunum vegna loftslagsbreytinga. Það er í meginatriðum óumdeilt eftir því sem ég fæ best séð. Hér á Íslandi virðast efasemdir aðallega varða einhver útfærsluatriði eða kvabb yfir því að þessi leið sé ekki heppileg heldur einhver önnur, frekar en að hér standi fólk í pontu og mótmæli því beinlínis að loftslagsbreytingar af manna völdum séu að setja mannlega byggð í uppnám ef ekki verður aðhafst mjög mikið bráðlega og reyndar strax. Þessu munu fylgja fólksflutningar, þessu munu fylgja farendur, kvótaflóttamenn og hælisleitendur, af ýmsum þjóðernum, frá ýmsum svæðum og af ýmsum ástæðum. Það verður ekki einfaldlega þannig að alls staðar verði svo heitt að ekki sé hægt að vera þar — sums staðar verður það þannig og er eiginlega orðið þannig — heldur hafa slíkar náttúruhamfarir og náttúruvár tilhneigingu til að espa upp enn meira mannlegan ágreining sem kannski var til staðar áður. Borgarastríðið í Sýrlandi er gott dæmi um þetta en árið áður en borgarastyrjöldin braust út, á hinu svokallaða arabíska vori, voru þar mestu þurrkar sem þar hafa þekkst, bein afleiðing af loftslagsbreytingum. Við hljótum að vita það fyrir víst á þessum tímapunkti. Það veldur hungri sem er almennt ekki gott fyrir friðinn. Það er almennt ekki gott fyrir friðinn að svipta fólk lífsviðurværinu eða gera því erfiðara að komast af. Það þýðir átök og átökum fylgir mjög rík tilhneiging til að búa til stóra hópa farenda, kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta er eitthvað sem við getum alveg gert ráð fyrir að verði áfram stefið í málefnum farenda næstu áratugina, jafnvel þó að við grípum strax í taumana gagnvart loftslagsbreytingum og gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem annars yrðu. Í því ljósi þýðir ekki að daðra við hugmyndir um að við getum byggt einhvern vegg. Við erum reyndar með vegg og hann heitir Atlantshafið, virkar ágætlega til að hindra fólk í að koma hingað á fæti eins og fólk hlýtur að sjá. En fólk mun koma hingað. Það mun fara út um alla plánetu, það mun reyna að finna sér stað vegna þess að það þarf og vill lifa — af þeirri einföldu ástæðu, ekki vegna þess að alla dreymi um að koma til einhvers lands sem hleypi því inn. Þá þurfum við að vera raunsæ. Það fylgja þessu ákveðin vandamál. Þau geta verið menningarlegs eðlis. Mögulega getur menningarlegur ágreiningur komið upp sem einhvern veginn þarf að kljást við ef fólk er t.d. í grundvallaratriðum með ólíkan skilning á því hvernig réttlæti virkar. Segjum eins og viðhorf til kynjanna eða kynhneigðar eða trúarbragða eða hvaðeina, þetta eru allt raunveruleg vandamál sem við þurfum að kljást við en við gerum það ekki með því að þykjast geta byggt vegginn. Það verður ekki lagað með veggnum. Fólk mun koma hingað og við þurfum að takast á við það. Það er engin leið að gera það á sama tíma og vera alltaf að kvarta og kveina yfir því að hlutirnir kosti peninga. Þetta mun kosta peninga. Eina leiðin til að spara peninga í þessum málaflokki er með því að hafa engan vegg og hleypa öllum inn. Ég heyri engan stinga upp á því andstætt því sem stundum er sagt hér í umræðunni. Ég heyri engan hér á þingi stinga upp á því, ég er ekki að stinga upp á því. En það er leiðin til að spara peninga ef það er aðalmarkmiðið. Við skulum gleyma því að við séum að fara að spara einhverja peninga í þessum málaflokki. Það er ekki þannig. Spurningin er: Hvernig nýtum við fjármagnið sem best til þess að taka sem best á móti þeim sem við þurfum og munum taka við þannig að þau geti hvað best tekið þátt í okkar góða samfélagi; við notið veru þeirra hvað best og þeim gengið sem best hér? Það er spurningin, virðulegi forseti.

Annað vandamál sem getur fylgt farendum er ef magnið er einfaldlega það mikið á stuttum tíma að það verði ákveðnum innviðum ofviða. Við þekkjum þetta af ferðaþjónustunni á Íslandi þegar þvílíkur fólksfjöldi kemur til landsins að það veldur álagi á vegi eða heilbrigðisþjónustu eða löggæslu og því um líkt. Það er ekki gagnrýni á ferðaþjónustuna eða ferðamenn, það er bara óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skyndilega komi hingað ofboðslega stór hópur fólks á sama tíma. Við erum ekkert að horfa fram á það þegar kemur að hælisleitendum eða kvótaflóttamönnum. Við horfum fram á kostnað í fjárlögum, vissulega og eðlilega og óhjákvæmilega, en það er ekki þannig að hingað séu að koma milljónir Ítala í kjölfar samþykktar EES-samningsins. Það er ekki þannig að í kjölfar samþykktar Sameinuðu þjóðanna um farendur komi hingað milljónir manna eða að tjáningarfrelsið verði afnumið og tekin upp sharía-lög. Það er ekki þannig að með því að samþykkja skynsamleg frumvörp eins og þetta, sem mér sýnist vera í fullu samræmi við téða samþykkt, séum við að opna fyrir einhverjar flóðgáttir. Það er einfaldlega ekki þannig, virðulegi forseti, og við eigum ekki að líta þannig á.

En þó vil ég segja að ef fólk hefur gríðarlega miklar áhyggjur af því að hingað komi allt í einu einhverjar milljónir á einum degi eða hvaðeina — og meðan ég man, það eru sirka 500 milljón manns sem mega það löglega í dag, það er fólk frá Evrópu. Það mega allir Ítalir flytja til Íslands í dag. Í dag mættu allir Þjóðverjar, Finnar, Írar, Spánverjar og Portúgalar taka pokann sinn og flytja til Íslands samkvæmt gildandi lögum. Það gerðist ekki eins og við vitum, kannski eru áhyggjurnar óþarfar. Ef fólk hefur samt sem áður alveg gríðarlegar áhyggjur af þessu skal fólk leggja til einhverjar fjöldatakmarkanir. Hvað? 200 á ári? 500 á ári? Ég veit það ekki, en það þurfa ekki að vera svakalegar takmarkanir til þess að vera þó þokkalega frábrugðnar því sem við gerum ráð fyrir í dag út frá því hversu margt fólk kemur hingað til að byrja með.

Áhyggjurnar af flóðinu eru óþarfar. Ef þær væru raunverulegar, flott, þá ættum við að takast á við þær áhyggjur eftir einhverjum skynsamlegum leiðum. Þegar umræðan byggist á bábiljum og staðreyndavillum, og stundum mjög alvarlegum rökvillum, er erfitt að eiga það samtal. Ég get alveg tekið undir það að ég vil ekki fá 10 milljónir manna allt í einu til Íslands á einum degi. Ég held að það væri ekki skynsamlegt fyrir innviði landsins. Ég myndi vilja dreifa því yfir langan tíma eða eitthvað því um líkt. Það má alveg ræða það andstætt því sem stundum er sagt. Það má alveg ræða útlendingamál en þá eiga þau ekki að byggjast á þeirri ranghugmynd sem sumir hafa um að lausnin sé að byggja veggi, að passa einhvern veginn að hingað komi ekki fólk. Það er ekki aðalvandamálið á Íslandi í dag og er ekki fyrirsjáanlegt að það verði. Það sem er fyrirsjáanlegt er að við tökum ekki nógu vel á móti fólki og hjálpum því ekki nóg vel við að komast inn í samélagið, þannig að því gangi vel hérna. Ef farendum gengur vel hérna gengur Íslandi vel með farendur. Þetta gengur algjörlega í báðar áttir.

Á þeim tveimur mínútum sem ég á eftir, eða einni og hálfri, langar mig að nefna eitt sem ég skynja oft í umræðunni. Það er talað um kostnaðinn við þjónustu við kvótaflóttamenn, að þeir fái ákveðna menntun, fái aðstoð við atvinnuleit, húsnæðisleit og því um líkt, eins og sóun, eins og við séum að sóa peningum með því að borga kennurum fyrir að passa börnin okkar í leikskóla eða dagforeldrum, eða að við séum að sóa peningum með því að kenna fólki að lesa eða að sóa peningum með því að hafa Vinnumálastofnun til þess að aðstoða fólk við atvinnuleit. Þetta er ekki sóun, virðulegi forseti, heldur erum við að gæta þess að glutra ekki niður tækifærum. Það kostar peninga að nýta tækifæri. Þetta eru fjárfestingar. Þetta er Íslandi sjálfu til heilla og hagsmunir farenda hér á Íslandi eru á engan hátt öndverðir íslenskum hagsmunum, hvort sem við erum að ræða um ríkissjóð eða almenning í landinu. Að því sögðu styð ég þetta frumvarp með fyrirvara um að við erum hér í 1. umr. og eflaust geta komið upp einhverjar ábendingar í meðferð þingsins. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja það fram og viðleitni til málaflokksins almennt. Ég er ekki svo sannfærður um að við náum öllum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Ég held að við þurfum að spýta í lófana og ég held að það sé mjög mikilvægt því að vandamálið fer ekki neitt. Málefni flóttamanna og hælisleitenda sérstaklega munu áfram verða fyrirferðarmikil. Þá er mikilvægt að við nálgumst málaflokkinn út frá raunveruleikanum, stingum ekki hausnum í sandinn heldur tölum um hlutina eins og þeir eru. Það eru hagsmunir íslenskrar þjóðar og íslensks ríkissjóðs að hingað komi fólk og því gangi vel hérlendis.