150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem tengist einu stærsta viðfangsefni samtímans á heimsvísu sem er mjög aukinn fjöldi flóttamanna. Því miður virðist mér þetta mál vera háð sömu annmörkum eða vera sama eðlis og allt of mörg mál frá þessari ríkisstjórn að yfirskriftin eða yfirlýstur tilgangur kann að virðast góður en aðferðin er ekki til þess fallin að ná þeim árangri sem að er stefnt eða jafnvel til þess fallin að gera ástandið verra. Það virðist til að mynda ekki liggja fyrir á nokkurn hátt með hvaða hætti menn ætla sér að tryggja öllum sömu þjónustu, þ.e. bæði kvótaflóttamönnum, sem mikil og löng reynsla er af að taka á móti á Íslandi og við höfum lagt áherslu á að taka vel á móti, og svo hinum mikla og sívaxandi fjölda hælisleitenda sem fá hér það sem nú er kallað alþjóðleg vernd, fá hér hæli. Fyrir vikið hafa menn ekki lagt mat á hver áhrifin gætu orðið á möguleika okkar á að veita þá þjónustu sem okkur hefur gengið mjög vel, held ég að mér sé óhætt að segja, að veita kvótaflóttamönnum sem við tökum á móti hér eða aðra aðstoð við flóttamenn á Íslandi eða erlendis.

Það að búa til skyldu fyrir ríkið um að veita tiltekna þjónustu fyrir ótilgreindan fjölda fólks og á sama tíma að vera með þeirri aðferð að auka þann fjölda óhjákvæmilega án þess að gera ráð fyrir afleiðingunum er ekki til marks um góðan undirbúning við framlagningu máls sem snýst um eins mikilvægan málaflokk og þetta. Það er alveg ljóst að það hvernig tekið er á móti hælisleitendum hefur mjög veruleg áhrif á fjölda umsókna. Reynslan af því er þekkt frá nágrannalöndum og raunar löndum um allan heim. Það er líka orðið þekkt núorðið hvernig það gengur fyrir sig. Því miður er hluti af því sú staðreynd að glæpagengi sem níðast á fólki sem stendur illa nýta sér neyð þess, nýta í sinni auglýsingastarfsemi — því þetta er í raun ekkert annað — þá þjónustu sem er í boði á hverjum stað til þess að selja aðgang að þeim svæðum. Þannig upplifðu til að mynda Finnar það fyrir fáeinum árum að skyndilega barst mikill fjöldi umsókna og fjöldi fólks kom þangað frá Írak sem nam tugum þúsunda. Finnar vissu ekki hvernig á þessu stæði en könnuðu málið. Þá kom á daginn að þar hafði hópur sem staðið hafði fyrir því að selja flóttamönnum, fólki í neyð, ferðir til annarra landa og hafði áður lagt áherslu á að flytja fólk til Belgíu, endurmetið stöðuna eftir að breytingar urðu á reglum þar og komist að þeirri niðurstöðu að vænlegasti áfangastaðurinn, miðað við það sem þar var í boði, væri Finnland.

Norðurlönd hafa brugðist við þessu til að geta betur haft stjórn á straumi flóttamanna og betur fylgt þeirri stefnu sem Norðurlönd flest hafa viljað fylgja, og Ísland lengi vel, þ.e. að vera í aðstöðu til að taka á móti kvótaflóttamönnum, sérstaklega í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, og taka vel á móti þeim og beina fólki í þann farveg. Norðurlöndin töldu ástæðu til að bregðast við þessari þróun og sýna fram á að besta leiðin, rétta leiðin, væri að fylgja því alþjóðlega kerfi sem menn höfðu verið að koma sér saman um fremur en að ýta undir að fólk kæmi með öðrum hætti sem oft á tíðum felur í sér, því miður, mjög hættuleg ferðalög á forsendum manna sem gjarnan svífast einskis. Þar af leiðandi hafa Norðurlöndin öll á undanförnum árum endurskoðað innflytjendastefnu sína og ekki hvað síst með tilliti til stöðu flóttamanna með það að markmiði að geta þá staðið sig betur og tekið betur á móti þeim sem sannarlega eiga rétt á hæli. Í Danmörku tók þetta reyndar á sig mynd sem mörgum þótti heldur ógeðfelld, mér þar á meðal, að gera kröfu um það að flóttamenn sem kæmu til landsins afhentu ríkinu eigur sínar. Hvers vegna tóku Danir upp á þessu? Þeir hlutu að vita að þetta myndi spyrjast út. Jú, til þess var leikurinn gerður, ef svo má segja, að það spyrðist út að ekki væri hlaupið að því að sækja um hæli í Danmörku ef menn gerðu það ekki á þeim forsendum sem dönsk stjórnvöld og raunar önnur norræn stjórnvöld töldu mikilvægt að væru fyrir þessum málum, þ.e. að fylgja þeim farvegi sem norræn stjórnvöld töldu mikilvægt að koma þessum málum í, sérstaklega núna þegar þetta er sívaxandi viðfangsefni.

Staðan er sú núna á Íslandi að hlutfallslega fleiri sækja um hæli hér en í Svíþjóð og Þýskalandi og miklu fleiri en sækja um hæli í Danmörku eða Noregi. Þetta er miðað við tölur 2017 og 2018. Á árinu 2017 sóttu fimmfalt fleiri hlutfallslega, miðað við íbúafjölda, um hæli á Íslandi en í Noregi og sexfalt fleiri en í Danmörku. Umsóknir miðað við íbúafjölda lands eru langflestar á Íslandi af Norðurlöndunum, og eins og ég gat um áðan fleiri en í Þýskalandi. Ísland er raunar með hæsta hlutfall í heimi, það eru helst löndin við Miðjarðarhafið, Grikkland, Kýpur og Malta, sem taka á móti fleiri umsóknum, einfaldlega vegna þess að þessi lönd eru næst þeim svæðum þar sem straumurinn er mestur og næst þeim svæðum þar sem fyrir vikið þeir aðilar sem nýta sér neyð þessa fólks senda flesta af stað, og því miður oft með hörmulegum afleiðingum.

Ég hefði talið að það væri eðlilegt og reyndar nauðsynlegt fyrir Ísland að líta til þróunarinnar á hinum Norðurlöndunum. Okkur er tamt að ræða um þróun á Norðurlöndunum og það á ekki hvað síst við á þessu sviði þar sem við getum annars vegar lært af reynslu þeirra landa sem hafa mun meiri reynslu en Ísland í að takast á við þessi mál og lært þá bæði af mistökum þeirra og því sem vel hefur gefist. Nú þegar verið er að endurskoða útlendingalög sem þetta mál tengist, og unnið að því í samráði flokka, er að mínu mati mjög undarlegt að ríkisstjórnin skuli skella þessu máli fram hér, algerlega án tillits til þess samráðs. Það sýnir kannski hversu mikið mark er takandi á því samráði eða vilja ríkisstjórnarinnar til þess samráðs.

Eitt af því sem gefur til kynna að þetta sé vanhugsað mál er að sjálfsögðu það hvernig áætlaður kostnaður við þetta er metinn. Það er getið um kostnað við að fjölga starfsmönnum Fjölmenningarseturs um tvo og svo er, held ég, gert ráð fyrir að það muni kosta 1,2 milljónir að kaupa skrifstofubúnað vegna þessa máls, en það er ekkert í frumvarpinu um það hver raunverulegur kostnaður verður af því að gjörbreyta þessu kerfi hér á Íslandi þrátt fyrir að það sé fullkomlega fyrirsjáanlegt, þó ekki væri nema með því að líta til reynslu annarra landa, að þetta muni stórauka umsóknir um alþjóðlega vernd, um hæli á Íslandi og fjölda þeirra sem fá svo á endanum hæli og eiga þá að njóta þessara réttinda. Með öðrum orðum, það er einfaldlega verið að fela þennan kostnað. Ráðherrann gat um það í ræðu áðan að tekið verði tillit til hans í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er ekki að sjá. Það er getið um 180 millj. kr. aukningu á tímabilinu. Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld fara fram með stefnu, ekki hvað síst í þessum málaflokki, þar sem, að því er virðist viljandi, litið er fram hjá augljósum áhrifum, ekki hvað síst með tilliti til kostnaðar.

Á sínum tíma, árið 2015, þegar straumur flóttafólks jókst skyndilega til mikilla muna, brást ríkisstjórnin við með þríþættum aðgerðum. Í fyrsta lagi með því að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum og setja fjármagn í það. Í öðru lagi með því að bregðast við auknum fjölda hælisumsókna og setja fjármagn í að geta betur tekist á við þær umsóknir og afgreitt þær hraðar en tekist hafði fram að því. Það var brugðist við hinni miklu fjölgun hælisumsókna. Í þriðja lagi með stuðningi við ríkin sem eiga í mestum erfiðleikum við móttöku flóttamanna, sérstaklega löndin þar sem eru mjög stórar flóttamannabúðir, til að mynda í Líbanon þar sem líbanska ríkið, sem stendur afar illa fjárhagslega, á mjög í vök að verjast og á erfitt með að standa undir þeirri þjónustu sem landið veitir flóttamönnum og nýtur því miður ekki þeirrar aðstoðar sem vera skyldi frá vestrænum ríkjum í formi fjárframlaga. Það sama á við um önnur rík en Líbanon vegna þess að stjórnvöld í þessum vestrænu löndum líta allt of oft ekki á heildarmyndina og vilja setja fjármagnið í eitthvað sem þau geta sýnt heima frekar en að setja fjármagn þar sem það kemur jafnvel að miklu meira gagni. Fyrir vikið eru aðstæður flóttamanna í mörgum þeirra landa sem eru hvað næst átaka- og hættusvæðunum afar bágbornar.

Ég myndi hvetja ríkisstjórn Íslands til þess að gera átak í því að styðja betur við móttöku flóttamanna á þessum stöðum, aðstoða þessi lönd við þetta mikilvæga hlutverk og taka svo vel á móti þeim flóttamönnum sem við tökum við, ekki hvað síst í samráði við Sameinuðu þjóðirnar, í stað þess að kasta stöðugt fram málum sem eru vanhugsuð, óútfærð, ófjármögnuð og jafnvel til þess fallin að valda tjóni fremur en hitt. Það færi líklega ágætlega á því að ríkisstjórnin liti ekki aðeins til reynslu Norðurlanda, eins og ég gat um áðan, og reyndi að læra af henni heldur liti á þá vinnu sem átt hefur sér stað í stjórnmálaflokkum á Norðurlöndum, til að mynda í Danmörku. Ef til að mynda stefna danskra sósíaldemókrata, dönsku Samfylkingarinnar, væri höfð til hliðsjónar mætti læra heilmargt af því og það gæti verið til þess fallið að gera okkur betur kleift að taka vel á móti því fólki sem hingað kemur, aðstoða fólk betur en við gerum nú á þeim svæðum sem eru næst stríði og annarri hættu og sinna þessum stóra og mikilvæga málaflokki, og mannúðinni sem er kjarni þessa málaflokks, betur en gert er með sýndarmennsku eins og hér er lögð fram.