150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað það er sem hv. þingmaður óttast svo mjög í þessum efnum. Nú vil ég ekki ætla hv. þingmanni það en sú umræða sem hér er fram borin á skylt við þann ótta sem stöðugt er alið á gagnvart útlendingum og flóttamönnum. Ég vona að það sé svo sannarlega ekki það sem hv. þingmaður er að fara með málflutningi sínum. En það er sagt: Já, við eigum að styðja þau heima við. Við þurfum að gera það líka. Við þurfum að vera metnaðarfyllri í aðstoð, þróunaraðstoð, aðstoð við ríki, en oft dugir það einfaldlega ekki til. Hér er fólk í brýnum vanda að flýja stríðshrjáð svæði og þá er lausnin heldur ekki sú að borga nágrannaríkjum þeirra fyrir að hýsa þau í flóttamannabúðum árum saman. Það er ekki framtíðarlausn eða framtíðarbúsetuúrræði fyrir fólk í viðkvæmri stöðu með börn. Þess vegna skil ég ekki hvaða vandamál það er að við aukum aðeins í metnaði okkar við að taka á móti flóttamönnum sem eru að koma frá hættusvæðum. Það þarf ekkert að óttast að við séum með galopin landamærin hér. Það eru fá lönd sem eru með jafn lokuð landamæri og við utan EES-svæðisins í raun. Það er bara mjög erfitt fyrir fólk utan EES-svæðisins að fá hér dvalar- eða landvistarleyfi með nokkru móti, það er kannski hluti vandans. En stóra málið á endanum er að hingað flytja árlega 4.000–6.000 manns frá ríkjum innan EES-svæðisins og það að því til viðbótar séu 100–300 manns, eins og raunin hefur verið, að fá hér landvistarleyfi, ýmist sem kvótaflóttamenn eða aðrir flóttamenn, sé ég ekki að skapi okkur einhver sérstök vandamál. Þvert á móti hefur okkur ekki veitt af því og við höfum beinlínis verið að sækja fólk hingað til lands til að starfa hér. Við eigum að bjóða þetta fólk velkomið. Ég skil ekki hvað það er sem hv. þingmaður óttast í þeim efnum.