150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að láta hjá líða að gera miklar athugasemdir við fyrstu athugasemd hv. þingmanns sem var dæmigerð Viðreisnarathugasemd í anda þeirrar ímyndarstjórnmála sem sá flokkur er farinn að stunda. Svoleiðis að fyrir vikið, af því að ég sleppi því, skal ég líka sleppa því að ræða hversu undarleg nálgun hv. þingmanns er að líta fyrst og fremst á flóttamenn sem framtíðarvinnuafl til að halda hagkerfinu gangandi.

En af því að hv. þingmaður spurði út í stöðuna í flóttamannabúðum og gerði að mér fannst svolítið lítið úr þeim samanburði við aðrar aðgerðir okkar í málefnum flóttamanna, samanburðinum sem ég var með um mikilvægi þess að standa betur að því að styðja við þessar búðir og löndin sem halda utan um þær, þá er alveg ljóst að mikill meiri hluti, langflestir þeirra sem búa í þessum búðum, það er reynsla mín af því að hitta þetta fólk, hitta fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, og er reynsla held ég flestra eða allra sem hafa fengið að fara og kynnast þessu af eigin raun, að þetta fólk vill helst geta snúið heim aftur. En það býr þarna í flóttamannabúðunum, oft og tíðum við ömurlegar aðstæður. Það er reyndar allur gangur á því, það er mikill munur á þessum búðum. Víða er, og þannig á það að vera, boðið upp á heilbrigðisþjónustu, boðið upp á menntun og aðra grundvallarþjónustu fyrir fólkið sem þarna býr. En það er ekki ókeypis og oft og tíðum mjög erfitt fyrir þessi fátæku lönd að standa undir þeirri nauðsynlegu þjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntaþjónustu, fyrir þetta fólk. Því skyldum við Íslendingar þá ekki vilja nýta það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar til að taka á þessum vanda, þeim umfangsmikla vanda með sem skynsamlegustum hætti? Því skyldum við þurfa að elta hugmyndir eins og Viðreisn og fleiri tala fyrir sem ganga að mínu mati allt of oft bara út á að sýnast, sýnast vera sá besti með því að gera eitthvað eins sýnilegt og mögulegt er í nærumhverfinu en vera oft og tíðum nokkuð sama um það sem er fjær?