150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér mun ekki endast tíminn til að rökræða þetta til fulls við hv. þingmann en til að svara hv. þingmanni sem spyr hvernig EES-samningurinn hafi gengið og fólksflutningar í kringum hann þá er svarið: Bara mjög vel. Það eru sirka 500 milljónir manna sem mega flytja til Íslands í dag og það er allt í lagi, ótrúlegt en satt, og hefur verið þannig í dágóðan tíma.

Hv. þingmaður segist vilja styðja við hópinn, þ.e. hælisleitendur og kvótaflóttamenn og svoleiðis, en hann leggur aldrei neitt til nema fara í einhverjar aðgerðir til að leysa vandann eins og hann lýsir honum hvað best í ræðu sinni, sem er einfaldlega fjöldi hælisleitenda og að það kosti einhverja peninga að taka á móti fólki. Þetta eru vandamálin sem ég heyri hv. þingmann kljást við í ræðu sinni, ekki þann vanda hvernig við ætlum að taka á móti fólki sem kemur hingað, óháð því hvort það eru 20 manns eða 2.000.

Hv. þingmaður fer einnig út í þann dæmigerða hræðsluáróður sem hefur komið upp hér í sambandi við samþykkt Sameinuðu þjóðanna um farendur og ekki síst síðustu útlendingalög sem voru samþykkt hérna, þ.e. þegar hv. þingmaður talar um að einhver sé að stinga upp á að gjörbreyta kerfinu og stórfjölga umsóknum um alþjóðlega vernd. Virðulegur forseti. Það er bara ekkert til umræðu hér, hvorki í þessu frumvarpi né í áætlunum stjórnvalda. Það er ekkert í samþykkt Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um það heldur, eins og hefur margsinnis komið fram.

Það sem mér finnst í raun og veru erfiðast við að hlusta á hv. þingmann fjalla um þessi mál er að hann lítur alltaf á málið þannig að það séu einhverjir vondir mansalshringir þarna út, sem er satt, sem bera ábyrgð á þessu öllu saman. Hann áttar sig ekki á því að það er ástæða fyrir því að mansalshringir reyna ekki að tæla Pólverja til Íslands eða Þjóðverja eða Finna. Það er vegna þess að Pólverjar, Grikkir, Þjóðverjar, Portúgalar og Finnar mega vera hérna. Þeir mega það einfaldlega. Það er ekkert að selja þeim. Þegar við fengum á sínum tíma afskaplega mikið af hælisumsóknum frá fólki frá Albaníu, Makedóníu, Georgíu og eflaust víðar frá var það fólk sem var í raun og veru aðeins að leita sér að atvinnu og hafði verið ráðlagt að fara hælisleitendaleiðina, sem var auðvitað slæmt fyrir þetta fólk, slæmt fyrir íslenska kerfið og allt það. Í stað þess að bjóða upp á eitthvert úrræði sem myndi henta því fólki sem kemur hingað gagngert til þess að vinna segjum við nei af ótta við eitthvert flóð og það eru þær aðstæður sem búa til þann þrýsting sem hentar mansalshringjunum. Hv. þingmaður er reyna að leysa rangt vandamál þegar hann talar hér í samhengi við þetta frumvarp.