150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði nú engra spurninga, hélt litla samhengislausa ræðu sem var nokkurs konar útdráttur úr ræðu hans áðan. Ég hef enga spurningu til að svara en get þó reynt að leiðrétta eitt og annað sem hv. þingmaður nefndi, eins og tími vinnst til. Í fyrsta lagi var ég ekki að gagnrýna EES-samninginn áðan ef hann skildi mig þannig. Ég var þvert á móti að nefna það á hvaða forsendum EES-samningurinn væri hugsaður og hvers vegna menn sjá fyrir sér að fólk geti flutt óhikað milli landa innan EES-svæðisins. Það er vegna þess að á því svæði hafa lífskjör náð því að verða tiltölulega sambærileg en þó ekki að meira marki en svo, svo ég bæti við fyrri skýringu, að frá Austur-Evrópu, þar sem lífskjör hafa verið lakari, hefur verið talsverður straumur vestur eins og var einfaldlega við að búast og má kannski segja að til hafi verið ætlast eða gert ráð fyrir. Raunar hefur sá straumur e.t.v. verið helst til mikill fyrir sum þessara landa sem hafa misst mikinn fjölda af hæfu fólki sem löndin hafa þurft á að halda, en það er önnur saga. Það er ein af hliðaráhrifum EES-samningsins sem eflaust hefur á heildina litið gagnast mörgum þeirra landa mjög vel.

Undir lok ræðu sinnar gekk hv. þingmaður hins vegar aðeins lengra en í fyrri ræðu sinni áðan þegar hann opnaði á það sem ég hafði einmitt haft hann grunaðan um að vilja, að einfaldlega opna á landamæri tiltölulega óháð aðstæðum og að þeir sem vildu flytja frá einu landi til annars ættu að hafa rétt á því. Það er ekki raunhæft fyrirkomulag, herra forseti, eins og menn hafa áttað sig á til að mynda í Danmörku þar sem danskir sósíaldemókratar hafa útskýrt fræðilega í rauninni að það geti ekki farið saman norrænt velferðarkerfi og opin landamæri. Því miður sé ekki hægt að hafa hvort tveggja samtímis og sterkt norrænt velferðarkerfi er betur í stakk búið til að aðstoða aðra heldur en ónýtt velferðarkerfi.