150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

ársreikningar.

447. mál
[16:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum, á þskj. 623, mál nr. 447. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga um ársreikninga þar sem fjallað er um skipti á félögum hafi þau ekki skilað ársreikningi eða samstæðureikningi eða þegar ársreikningaskrá kemst að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi uppfylli ekki ákvæði laganna.

Skil á ársreikningum hafa batnað verulega eftir að viðurlög voru hert með lagabreytingu árið 2016, en tímanleg skil eru grundvöllur þess að upplýsingar úr reikningsskilum félaga nýtist atvinnulífinu. Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá fengu 4.557 félög sekt vegna vanskila á ársreikningi fyrir reikningsárið 2016. Þar af hefur 1.631 félag enn ekki staðið skil á ársreikningi og er enn skráð í fyrirtækjaskrá. Óljóst er hverjar ástæður eru fyrir því að félögin hafa ekki skilað ársreikningi en þau félög sem ekki hafa skilað ársreikningi samkvæmt framansögðu falla undir slitaákvæði 121. gr. laga um ársreikninga.

Í ljósi þess fjölda félaga sem hér um ræðir, og ekki síst þess kostnaðar sem myndi hljótast af kröfu um skipti á þeim eftir ákvæðum laganna, hefur verið talið rétt að gefa félögum tækifæri til þess að koma ársreikningaskilum sínum í lag samhliða því að rekstri félaganna verði slitið og fullnægjandi ársreikningum skilað.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær meginbreytingar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum á frestum vegna yfirvofandi kröfu um skipti á grundvelli 121. gr. laganna. Í því skyni eru lagðar til breytingar á þeim lokafresti sem félögum gefst til að setja fram ársreikning í réttu formi og nánari reglur um meðferð þeirrar kröfu fyrir héraðsdómi. Þá er í öðru lagi lagt til í frumvarpinu að ársreikningaskrá verði heimilað að fella niður álagðar stjórnvaldssektir á grundvelli 120. gr. laganna samhliða slitum á viðkomandi félagi. Sú heimild er ætíð háð því skilyrði að þau hafi skilað ársreikningi í réttu horfi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ársreikningaskrá verði heimilað að fella niður álagðar sektir vegna vanskila á ársreikningum samhliða því að félögum verði slitið og fullnægjandi ársreikningi skilað.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.