150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

breyting á ýmsum lagaákvæðum um innlánsdeildir og hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga.

448. mál
[16:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um innlánsdeildir og hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga á þskj. 624, mál nr. 448. Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að felld verði brott heimild samvinnufélaga til að starfrækja innlánsdeildir og hins vegar að sett verði sambærileg hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóra samvinnufélaga og gilda fyrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Frumvarpið hefur þannig að geyma tillögur til breytinga á lögum um samvinnufélög og afleiddar breytingar á öðrum lögum vegna framangreindrar tillögu er varða innlánsdeildir samvinnufélaga.

Í 2. gr. a í lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, er að finna heimild samvinnufélaga til að starfrækja innlánsdeildir að uppfylltum ákveðnum ströngum skilyrðum. Í 18. gr. laganna segir að félagsaðilar beri ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu aðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins. Með hliðsjón af þessu hefur staða innlánseigenda í innlánsdeildum samvinnufélaga ekki þótt nægilega trygg. Með lögum nr. 84/1993 og 23/2001 voru skilyrði fyrir starfrækslu innlánsdeilda hert og kveðið á um að ákvæði um innlánsdeildir skyldi endurskoða, fyrst eigi síðar en 1. janúar árið 2000 og svo aftur 1. janúar árið 2004.

Í frumvörpum þeim er urðu að lögum nr. 84/1993 og 23/2001 er ítarleg umfjöllun um stöðu innlánseigenda í innlánsdeildum og lýst áhyggjum af stöðunni. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 23/2001 segir m.a. að samdráttur í starfsemi innlánsdeilda miðað við heildarinnlán innlánsstofnana og breytingar á fjármagnsmarkaði sýni að stöðu innlánsdeilda samvinnufélaga hafi hrakað á árunum á undan í samanburði við viðskiptabanka og sparisjóði. Rökstyðja megi að innlánsdeildirnar þjóni ekki þeim þörfum í fjármálaþjónustu sem gerðar séu kröfur um, auk þess sem hagsmunir innlánseigenda séu ekki varðir með sama hætti og í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Tæpast sé hægt að líta á innlánsstarfsemi samvinnufélaga sem framtíðarleið fyrir samvinnufélög á fjármagnsmarkaði. Bent er á að innlánsstarfsemi sé almennt talin fara illa saman við annan atvinnurekstur og þannig hafi viðskiptabönkum og sparisjóðum verið settar þröngar takmarkanir varðandi aðra starfsemi en afmarkaða fjármálastarfsemi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafa á undanförnum árum borist ábendingar frá Fjármálaeftirlitinu um að nauðsynlegt sé að taka ákvæði laga um samvinnufélög um innlánsdeildir til endurskoðunar en stofnunin fer með eftirlit með þessari starfsemi samvinnufélaga. Í erindum Fjármálaeftirlitsins kemur fram að endurskoða þurfi heimildarákvæði 2. gr. a með hliðsjón af því að ekki sé talið heppilegt að slík starfsemi, þ.e. innlánsdeildir, fari fram í félagi sem ekki lýtur varúðarreglum sambærilegum og gildi um viðskiptabanka og sparisjóði.

Á tímabilinu 1999 til ársins 2006 fækkaði innlánsdeildum úr tíu í eina. Í árslok 2016 námu innlán innlánsdeildarinnar 1.668 millj. kr., þ.e. 0,1% af heildarinnlánum innlánsstofnana. Síðustu innlánsdeildinni var lokað á árinu 2017 og var Tryggingarsjóði innlánsdeilda slitið á árinu 2018. Í dag eru því ekki starfræktar innlánsdeildir samvinnufélaga. Með tilliti til þess, svo og þess að innlánsstarfsemi er talin eiga betur heima í bönkum og sparisjóðum en samvinnufélögum, en um þá gilda strangar varúðarkröfur, er lagt til að fella úr gildi umrætt ákvæði 2. gr. a í lögum um samvinnufélög.

Einnig eru, eins og fyrr segir, lagðar til breytingar á fleiri lögum sem leiða af framangreindri breytingu á lögum um samvinnufélög. Hvað hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga varðar bera félagsmenn í samvinnufélögum ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingu félags umfram aðildargjald og svipar samvinnufélögum því til hlutafélaga og einkahlutafélaga að þessu leyti.

Að því virtu verður ekki séð að ástæða sé til að gera minni kröfur til hæfis stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga en gerðar eru til hæfis stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Í frumvarpinu er því lagt til að sömu hæfisskilyrði gildi um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra samvinnufélaga og gilda um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.