150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

mótun stefnu Íslands um málefni hafsins.

461. mál
[17:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um málefni hafsins sem kemur frá þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna og hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Þar er auglýst eftir stefnu í málefnum hafsins. Enginn dregur dul á mikilvægi þess að hafa klára stefnu í þeim efnum. Það mikilvægi er öllum ljóst en í greinargerðinni er ekki getið, að því er ég best sé, um stefnu sem er til. Til er íslensk stefna stjórnvalda í málefnum hafsins og heitir Hafið – stefna Íslands. Hún er frá 2004. Það plagg var unnið á vegum þriggja ráðuneyta og undir það skrifa Siv Friðleifsdóttir sem var þá umhverfisráðherra, Árni M. Mathiesen sem var þá sjávarútvegsráðherra og svo Halldór Ásgrímsson sem var utanríkisráðherra. Þetta eru 40 síðna skrif með sex köflum, t.d. um lífríki hafsins og sjálfbæra nýtingu í 3. kafla svo ég nefni einhver dæmi. Svo er heill kafli, 6. kafli, sem er sem sagt stefnan. Ég ætla að vera hógvær og þess vegna segi ég að þetta sé nokkuð framsækið stefnuplagg miðað við 16 ára aldur. Þetta er ágætur grunnur undir endurskoðun eða nýja stefnu, hvað sem við köllum þetta, sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins á fundi í utanríkismálanefnd sagði okkur fyrir fáeinum dögum að væri í undirbúningi. Málefni hafsins eru mikilvæg, þau eru auðvitað lykilatriði og það kom skýrt fram í máli hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði sem bera þessu vitni, fyrst aðeins um mikilvægið yfir höfuð. Hv. þm. Guðmundur Andri nefndi þetta matarkistu mannkyns og það er alveg rétt, ég tala nú ekki um matarkistu framtíðar vegna þess að í raun er þannig komið fyrir venjulegum og hefðbundnum fiskveiðum að þær munu ekki gefa miklu meira af sér en þær gera nú þegar á heildina er litið. Þetta verður matarkista í áður óþekktum mæli vegna þess að nýting lands, sem er einungis einn þriðji jarðkúlunnar, sem landbúnaðarlands er takmörkuð í miklu meira mæli en það sem væri hægt að nýta úr hafi. Þá á ég við fiskeldi, ég á við sjávargróður og ég á við smáar sjávarlífverur sem við notum mjög lítið enn þá. Þegar það er svo borið saman við það landrými sem er til reiðu ef maður ætlar um leið að varðveita líffræðilega fjölbreytni lands, sem sagt á landi, og bindigetu gróðurs og annað slíkt er alveg ljóst að ræktun, grænmetisræktun, kornræktun eða hvað menn vilja kalla á landi eða þess vegna fiskeldi á landi, getur aldrei gefið það sama af sér þegar á heildina er litið og hafið sjálft. Það minnir okkur á bæði dýra- og jurtaríkið í hafinu sem kemur til greina.

Þetta var aðeins um mikilvægið og þá takmörkun sem landjörðin býr yfir þegar kemur að því að fæða átta, níu eða tíu milljarða manna.

Aðeins um það sem er að gerast að öðru leyti, sérstaklega í alþjóðasamfélaginu. BBNJ-verkefnið kom fram sem er alþjóðasamningur sem er í burðarliðnum að klárast milli 2018 og 2020. Hann er annar en Ríó-samningurinn frá 1992. Við getum orðað það sem svo að það snúist um lögsögu ríkja en þessi samningur snýst um hafið utan lögsögu ríkja og líffræðilega fjölbreytni þar. Það er áhersluatriði sem þarf þar að móta og þessi samningur er þokkalega á veg kominn, sagði okkur sömuleiðis formaður íslensku sendinefndarinnar sem vinnur að þessu, og mun leiða til friðunar hafsvæða þegar upp er staðið. Það er mjög jákvætt og við getum svo farið nánar yfir hvernig þessum samningaviðræðum er hagað af hálfu Íslands. Það er svo annað, en áhersluatriðin voru mótuð snemma í þessu ferli og farið yfir þau á utanríkismálanefndarfundinum og ég heyrði ekki betur en að nokkuð vel væri frá þeim gengið.

Mig langar líka að nefna að núna er verið að sækja fram varðandi hafsbotnsréttindi Íslands og þá erum við að fara út fyrir efnahagslögsögu. Það er verið að sækja réttindi Íslands út fyrir efnahagslögsöguna og sú vinna er í ferli með nýjum rannsóknarviðmiðum. Sjónum er núna einkum beint að Reykjaneshrygg og reynt að klára að afmarka það svæði sem Ísland hefur gert kröfur til. Þetta eru ekki samningaviðræður, það eru einfaldlega settar fram kröfur og svo er reynt að sjá við hverjum þeirra er hægt að verða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þarna undir er sem sagt hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna. Það er búið að afgreiða svokallað Ægisdjúp sem er norðaustan við Ísland. Þar er búið að viðurkenna okkar réttindi. Það er sem sagt enn verið að reyna að afmarka Reykjaneshrygginn og síðan er erfiðasti parturinn eftir sem er svokallað Hatton-Rockall svæði. Þessi vinna er í fullum gangi og svo geta menn líka deilt um það hvort og hversu mikið ríki eiga að leggja áherslu á að teygja sig út á hafsbotninn á jarðfræðilegum grunni fyrst og fremst, en það er önnur Ella.

Þá er annað sem mig langar að nefna, alþjóðleg ráðstefna vegna hækkunar sjávarborðs. Það er ekki náttúrufræðileg ráðstefna heldur á lögfræðilegum nótum. Hana á að halda í júní 2020. Það er verið að reyna að komast að því hvernig ríki heims geta brugðist við hækkun sjávarborðs á samfélagslegum og lögfræðilegum nótum, t.d. varðandi tryggingar og alls konar slíka hluti.

Þá vil ég nefna það sem heitir UN Scientific Ocean Initiative á ensku, þ.e. eins konar frumkvæði Sameinuðu þjóðanna vegna rannsókna á höfunum. Það er þá orðið náttúrufar og annað því um líkt. Þar er verið að samhæfa rannsóknaniðurstöður og auka við rannsóknir. Þetta snýr m.a. að súrnun hafsins og súrefnisinnihaldi sjávar.

Mig langar enn fremur að nefna að samningaviðræður eru hafnar um nýtingu og verndun alþjóðlegra hafsvæða um allan heim. Þetta er líka á vegum Sameinuðu þjóðanna og þá er verið að tala um vatnsbólin, ekki sjávarbotninn heldur sjóinn sjálfan. Þar er verið að reyna að ná saman um reglur og hegðun á úthafinu og þar með um leið réttindi varðandi verndun og nýtingu, m.a. hvala og annars konar lífvera fyrst og fremst, bæði úr jurtaríkinu og dýraríkinu á þessu hafsvæði sem eru öll heimshöfin utan lögsögu ríkja.

Í síðasta lagi langar mig að nefna að það hefur verið hreyfing í þá átt að friða og vernda hafsvæði innan lögsögu ríkja í langan tíma. Það er vegna líffræðilegrar fjölbreytni, uppeldissvæða sjávardýra og botnlægra verðmæta sem ekki má hrófla við. Íslensku dæmin blasa við okkur, annars vegar Breiðafjörður þar sem enn er og verður leyfð nýting. Þetta er engu að síður friðað svæði með sérstökum lögum. Hins vegar er þar sem er búið að banna eitthvað með lögum, þá kóralrif, aðallega sunnan Íslands. Allt þetta er til bóta. Stundum eru einkaaðilar, eins og Mission Blue, sem standa að þessu en svo eru líka yfirvöld eins og bresk yfirvöld.

Herra forseti. Það er nóg að gera við að þoka áfram framförum í málefnum hafsins. (Forseti hringir.) Ég hvet til þess að líta á þessa þingsályktunartillögu í ljósi alls þess sem ég hef hér fært fram og einnig þess að til er stefna Íslands í hafmálum.