150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

skaðabótalög.

430. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann tók vel undir gjafsóknarbeiðnina, sem er alveg frábært. Ég vildi koma því að í þessari umræðu, bara til upplýsingar, að ef Íslendingur fær gjafsókn til að fara í mál við tryggingafélagið og vinnur málið borgar tryggingafélagið gjafsóknina aftur til baka í ríkissjóð þannig að ríkissjóður er í sjálfu sér ekkert að tapa á því. Í flestum tilfellum vinnur einstaklingurinn. Ef hann kemur málinu fyrir dómstóla fær hann einhverjar bætur. Við erum því ekki að senda neinn reikning á ríkissjóð út af gjafsókninni.

Svo er annað sem við verðum líka að átta okkur á. Ef við gerum upp þennan bótasjóð, sem eru tugir milljarða á ári með reglulegu millibili, þarna er hellingspeningur, getum við t.d. notað peningana til að efla Grensásdeild sem tekur við illa slösuðu fólki. Við getum líka eflt heilbrigðiskerfið. Við verðum að átta okkur á því að þegar við lendum í umferðarslysi og lendum inni í heilbrigðiskerfinu borga tryggingafélögin hér ekki neitt. Ef útlendingur lendir í slysi og er tryggður borgar tryggingafélag útlendingsins sjúkrahúskostnað og allt annað. Það eru auðvitað gífurlegir fjármunir sem tengjast umferðarslysum og öðru, sjúkrahúskostnaður og annað. Það er alveg óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið séð til þess, með uppgjör á bótasjóði og öðru, að þetta fé renni til þeirra sem vinna við að endurhæfa fólk, að þeir fái þessa peninga og að þeir séu notaðir til góðra hluta.