150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétti tíminn núna til að bretta upp ermar þegar við horfum á stöðuna í hagkerfinu og þau ótvíræðu merki kólnunar sem sjást víða. Það er að hægja verulega á í ferðaþjónustu og talað um hagræðingarár þar á þessu ári. Það er sömuleiðis að hægja verulega á í byggingariðnaði, jafnvel talað um umtalsverðan samdrátt í byggingarframkvæmdum á þessu ári, og ljóst að víða þar sem litið er verður árið 2020 nokkuð rólegt ár. Þá er tækifæri til að auka verulega í opinberar fjárfestingar og þar er af nógu að taka hvað tækifærin varðar.

Fyrir utan nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og fjölgun hjúkrunarrýma er alveg ljóst að við höfum engan veginn haldið í við aukna umferð á þjóðvegum landsins samhliða mikilli fjölgun ferðamanna. Þar getum við svo sannarlega aukið verulega í og fréttir undanfarinna vikna af tíðum slysum á þjóðvegum landsins sýna að svo sannarlega er ekki vanþörf á og ekki síður að við aukum vetrarþjónustu á þjóðvegum og helstu umferðarleiðum landsins. Því til viðbótar eru fréttir af rafmagnstruflunum og rafmagnsleysi samhliða óveðrinu fyrir skemmstu brýn áminning um nauðsyn þess að ráðast í víðtæka uppbyggingu í dreifikerfi raforku.

Staðreyndin er, herra forseti, að opinberar fjárfestingar hafa verið sveltar úr hófi fram í áratug. Jafnvel þó að núverandi ríkisstjórn hafi lítillega aukið þar í nær það engan veginn að vinna upp þann mikla slaka sem hefur skapast í opinberri fjárfestingu á þessum áratug. Því væri rétt við þessar kringumstæður að taka upp fjárlög ársins 2020 og bæta a.m.k. 30 milljörðum á ári við opinberar fjárfestingar og horfa til næstu tveggja til þriggja ára með 30 milljarða aukningu til að ráða bót á þeim mikla skorti sem orðið hefur í innviðauppbyggingu á undanförnum áratug (Forseti hringir.) og lyfta undir með hagkerfinu þegar það er að kólna.