150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Náttúruvá er margs konar hér á landi og hefur oft reynt illa á okkur. Það eru t.d. ýmiss konar flóð, snjóflóð og sjávarflóð og flóð í ám. Við notum þennan vettvang gjarnan til að minna á ein og önnur verkefni og mig langar að minnast sérstaklega á sjávarflóð. Þau stafa annars vegar af hækkandi sjávarborði sem getur verið allt upp í þrjá, fjóra millimetra á ári og eykur heldur í hraðann, og flóðbylgjum, sem ég vil minnast á, vegna jarðskjálfta eða snjóflóða eða skriðu í sjó fram. Við vorum minnt harkalega á einmitt svona flóðbylgjur bæði á Suðureyri og að hluta til á Flateyri í kjölfar harkalegra snjóflóða sem þar fóru í sjó fram. Ég tel að við verðum að undirbúa átak í að hækka og reisa sjávarvarnargarða víða um land næstu áratugi, leggja fram bæði fjármuni og styrkja sjóði. Þetta snýst um ofanflóð, sjálf snjóflóðin, sjávarflóð vegna flóðbylgja og annarra orsaka og svo árflóð. Við þurfum að sameina þá sjóði sem um ræðir í svokallaðan hamfarasjóð sem ekki er búið að gera enn. Þetta tengist jafnvel eldgosum og jarðskjálftum einnig. Það þarf að kosta rannsóknir, sameina þær á einn stað og eins varnirnar sjálfar. Fyrsta skrefið, eins og ég nefndi áðan, er að hækka núverandi garða. Það þolir enga bið og þarf að gera á mörgum stöðum á landinu, ekki bara þar sem er snjóflóðahætta heldur einnig þar sem eru láglendar strendur.

Að lokum langar mig að minna á að okkur vantar líka þyrlupalla við bæi þar sem eru sjúkrahús, á borð við Ísafjörð, Neskaupstað og Vestmannaeyjar. Það er gott að hafa varðskipið Þór fyrir vestan þegar á bjátar en það þarf að gera heldur betur og hafa forvarnir og fyrirhyggju í fyrirrúmi.