150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Máttarvöldin hafa verið dugleg að minna á sig undanfarnar vikur og hafa vakið athygli okkar á því hvar við erum sett niður á jarðarkringlunni. Skemmst er að minnast veðurofsa fyrir rúmri viku og snjóflóðahrinu fyrir vestan. Þar bíður mikið uppbyggingarstarf en enginn bilbugur er á heimamönnum. Stjórnvöld þurfa að koma að með skjótum og markvissum hætti.

Fyrir nokkrum vikum setti óveður ýmislegt á skjön í þjóðfélaginu vítt og breitt um landið, samgöngutruflanir, fjarskiptarof, raforkutruflanir og skemmdir á mannvirkjum. Í ljós komu alvarlegir veikleikar á ýmsum þáttum innviða sem almenningur trúði að væru í sæmilegu standi. Í kjölfarið reis upp alda gagnrýni og meiningar heyrðust um að stjórnvöld hefðu sofið á verðinum. Mannvirki hefðu átt að vera betur varin, viðhald á dreifi- og flutningskerfi orku hefði ekki verið fullnægjandi og ekki í samræmi við vaxandi kröfur og vaxandi þörf. Fjarskiptakerfi eru ekki í samræmi við kall tímans.

Núna er engu að síður úrvinnslan mikilvæg sem og framtíðin. Innviðir, hvort sem átt er við raforku, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónustu, eiga að vera þannig að sem minnstu máli skipti hvar fólk kýs að búa. Það er þó ekki þannig í dag. Ég velti því fyrir mér, og fleiri hafa svo sem tjáð sig á svipuðum nótum, hvort ástæða sé til að staldra við í tilefni þessara atburða, horfa til umgjarðar laga og reglugerða sem snúa að umhverfisvernd, skipulagi og úrskurðarferlum, hugsanlega að skilgreina hluta þessa upp á nýtt með sérstökum og skýrum áherslum á þjóðaröryggi og almannahagsmuni, að öll grunnkerfi okkar hringinn í kringum landið séu vel varin, þeim vel við haldið og standist allar eðlilegar kröfur. Sérstakt tillit verði í þessu sambandi tekið til íbúa landsbyggðar.

Mín skoðun er, virðulegur forseti, að almenningur eigi það inni hjá löggjafanum að þessi atriði verði skoðuð nánar.