150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi málefni á dagskrá sem er auðvitað viðfangsefni heilbrigðisráðuneytisins á hverjum einasta degi en líka umfjöllunarefni hér á Alþingi og í hv. velferðarnefnd. Hv. þingmaður óskaði eftir að ræða framlengingu samninga við hjúkrunarheimilin sérstaklega og styrkingu rekstrargrundvallar eins og kom fram í inngangi hennar og aukið gagnsæi í framsetningu fjárlaga varðandi daggjöld o.s.frv. Auk þess ræddi hv. þingmaður um það hvort leysa mætti hluta af vanda Landspítala með betri nýtingu stofnana í nágrenni Reykjavíkur.

Ég tel rétt, áður en ég fer í að svara einstökum liður spurningarinnar, að árétta að í dag eru þrjú stór framkvæmdaverkefni sem varða heilbrigðiskerfið á fjármálaáætlun. Þannig er áætlað að verja um 5 milljörðum kr. í byggingu nýs Landspítala á árinu 2020 og 1,7 milljörðum í stórsókn í byggingu nýrra hjúkrunarheimila á þessu ári. Auk þess er á fjármálaáætlun ný legudeildarálma við Sjúkrahúsið á Akureyri sem er löngu tímabær, árið 2023 og 2024, þannig að á tíma áætlunarinnar er gert ráð fyrir alls 100 milljörðum í fjárfestingu á heilbrigðissviði. Við höfum aldrei í sögunni séð eins mikla uppbyggingu á þessu sviði, enda er hún löngu tímabær eftir vanrækslusyndir fyrri stjórnvalda. Við erum sem sagt á þessu tímabili að stíga mjög stór skref í mikilvægum byggingarframkvæmdum á kjörtímabilinu.

Hvað varðar samningana þá hafa nú tekist samningar milli Sjúkratrygginga og rekstraraðila hjúkrunarheimila. Það var samið við hvern og einn aðila en samningarnir eru samhljóða og taka til 2.468 rýma og nema um 32,5 milljörðum kr. á verðlagi þessa árs. Samhliða þessum samningum hafa samningsaðilar og Samband íslenskra sveitarfélaga gert með sér samstarfssamning um fagleg málefni. Í honum felst m.a. að á samningstímanum verða raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila greind í samvinnu aðila og þannig undirbúin endurskoðun á rekstrargrundvelli þeirra í samræmi við bæði stjórnarsáttmálann sem hv. þingmaður nefnir en ekki síður ítrekaðar ábendingar hv. fjárlaganefndar, a.m.k. meiri hluta nefndarinnar, en ég geri ráð fyrir að minni hluti nefndarinnar hafi haft sömu ábendingar. Sú vinna er auðvitað forsenda þess að hægt sé að styrkja rekstrargrundvöllinn og ég bind mjög miklar vonir við þessa samvinnu, að þá hafi báðir aðilar eða allir aðilar, ef svo má að orði komast, vilja til að skýra betur hver grundvöllurinn er í raun, þ.e. hvaða þjónustu verið er að veita og hver raunkostnaður hennar er.

Mönnunin er áskorun eins og annars staðar í heilbrigðisþjónustunni og það er mál sem er sérstaklega til skoðunar hjá mér. Það er sérstakt gæðaeftirliti á hjúkrunarheimilum í gegnum RAI-mat sem öllum hjúkrunarheimilunum hérlendis er gert að framkvæma a.m.k. tvisvar á ári. Í því mati er fjöldi gæðavísa vaktaður, m.a. þeir vísar sem gætu gefið til kynna afleiðingar mögulegrar undirmönnunar. Ef hjúkrunarheimili uppfylla ekki öll gæðaviðmið fá þau ábendingu um slíkt frá embætti landlæknis en gæðaeftirlit á hjúkrunarheimilum er öflugt og ekki ástæða til að ætla annað en að íbúar þar búi við öryggi. Vegna þeirrar miklu fjölgunar sem við sjáum fram á í hópi aldraðra á allra næstu árum leggjum við vaxandi áherslu á að aldraðir búi heima eins lengi og verða má og það er í samræmi við áherslur þeirra sjálfra. Það getur kallað á öðruvísi mönnun hjúkrunarheimila. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að endurskoða mönnun og viðmið, styðja við faglegar undirstöður þeirra og ekki síður að endurskoða rekstrargrunn eins og áður segir. Ég hef sérstaklega styrkt Alzheimer-samtökin til að koma á fót jafningjafræðslu fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila sem miðar að því að styrkja starfsfólk faglega í sinni þjónustu og sérstaklega í þjónustu við einstaklinga með heilabilun.

Varðandi gagnsæi í framsetningu fjárlaga þá er það svo að lög um opinber fjármál segja til um það hvernig fjárlög eru sett fram og þá er ráðuneytið í sjálfu sér bundið af þeim. Framsetningin er samkvæmt lögum en með tilkomu laganna er verkefnum skipt á málefnasvið og málaflokka og fjárheimildum úthlutað í málaflokka í ákveðin verkefni, óháð því hver er rekstrar- eða þjónustuaðili. Það má velta því upp hvort fylgirit fjárlaga mætti vera greinarbetra en það er eitthvað sem mér finnst og skoðaði sjálf á sínum tíma meðan ég var að skoða þessi mál á vettvangi þingsins.

Mikið hefur verið fjallað um útskriftarvanda Landspítalans síðustu vikur og sú spurning hefur oft komið upp hvort heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni geti hjálpað til. Það eru formleg samskipti milli forstjóra Landspítala og forstjóra annarra heilbrigðisstofnana og þar er átt í daglegum samskiptum við aðliggjandi heilbrigðisstofnanir um samstarf o.s.frv., en mér er ljóst að það er mikill faglegur metnaður meðal forsvarsmanna. Vegna þess að hv. þingmaður ræddi sérstaklega hér undir lokin hugmyndir Miðflokksins um að (Forseti hringir.) nýta byggingarnar við Hringbraut í öðru skyni, verðum við að gæta að því að um er að ræða afar sérhæfða hönnun og að mati þeirra sem best þekkja til sennilega (Forseti hringir.) flóknasta byggingarframkvæmd Íslandssögunnar sem er gerð til þess að vera meðferðarkjarni í hátæknisjúkrahúsi.