150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. [...] Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila.“

Í lok árs 2019 var gengið frá þjónustusamningum til 2022 milli Sjúkratrygginga Íslands og 40 hjúkrunarheimila sem forsvarsmenn segja mikla afturför. Ekki sé gert ráð fyrir fjármunum vegna aukinnar þjónustuþarfar þjónustuþega og muni greiðslur meira að segja lækka — lækka — vegna íbúa með sömu þjónustuþörf og áður. Þetta gallaða kerfi var sem betur fer aflagt með samningunum 2016 en er nú endurnýtt af núverandi ríkisstjórn. Samtökunum var stillt upp við vegg: Þið fáið þennan samning eða ekkert, hvernig sem stjórnvöld sáu nú fyrir sér að leysa stöðuna yrði enginn samningur.

Það þarf að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og það þarf líka að fjölga plássum og þar hafa einmitt Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, þessir sömu rekstraraðilar, boðið fram aðstoð sína við að fjölga plássum um 70, án aukins tilkostnaðar, og um önnur 13, með litlum tilkostnaði, ef stjórnvöld, ríkisstjórnin, eru reiðubúin að ganga til samninga um þjónustuna. Því miður hafa stjórnvöld ekki verið tilbúin í það samtal. 83 pláss á einu bretti með litlum tilkostnaði er heilmikið. Vil ég því skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að skoða þetta tilboð ígrundað. Það munar mjög mikið um 83 hjúkrunarrými. Það sparast heilmikill peningur annars staðar í kerfinu vegna sjúklinga sem teppa deildir spítala.