150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni fyrir þessa góðu og nauðsynlegu umræðu sem er nauðsynlegt að eiga hér í dag. Það er alveg ljóst, eins og kom fram í fyrstu ræðum, að á næstu árum þarf að fjölga dvalarheimilum allverulega. Það er verið að vinna í því. Það er t.d. verið að opna 99 herbergi á Sléttuvegi innan nokkurra daga eða vikna. Þau rými eru auðvitað kærkomin en það kemur í ljós að töluvert af þeim munu fara til að útrýma öðrum rýmum og við erum líka að fara nokkuð hratt í að gera það.

Ég held að við verðum að leita annarra leiða í því hvernig við ætlum að annast eldri borgara á næstu árum. Það liggur fyrir að þeim er að fjölga gríðarlega. Þeim hefur fjölgað um u.þ.b. 60% frá aldamótum og við þurfum að leita nýrra leiða. Með það að markmiði höfum við þrír þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson og Ólafur Þór Gunnarsson, lagt fram þingsályktunartillögur um nýjar leiðir til þess að létta á dvalarheimilunum. Það er ein tillaga um heilsueflingu aldraðra, sem er nú reyndar komin nokkuð vel í gang mjög víða, sem seinkar komu aldraðra á heimilin. Það er aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum, tillaga sem Ólafur Þór Gunnarsson flytur, og tillaga um afnám aldursviðmiðana sem gefur fólki frjálsræði til þess að ákveða hvenær það hættir að vinna. Öll þau atriði og fleiri eru leiðir til þess að mæta auknum fjölda eldri borgara á næstu árum sem við þurfum að annast og eiga skilið að eiga gott ævikvöld.