150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Vandinn er færri rými á hjúkrunarheimilum eða minni heimaþjónusta en þarf. Þetta er ekki nýtt vandamál. Við erum búin að vita þetta í mörg ár, búið að benda á þetta ítrekað í fjárlaganefnd. Þetta er hvorki ófyrirsjáanlegt né óleysanlegt. Þrátt fyrir það er ekki enn komin áætlun til að leysa þetta vandamál, merkilegt nokk, eftir öll þessi ár. Vandamálin eru hins vegar fleiri, t.d. að það er ekki verið að uppfylla gæðakröfur landlæknis í samningum Sjúkratrygginga Íslands við aðila í velferðarþjónustunni. Það er eitt vandamál líka. Stærsta vandamálið er kannski þegar allt kemur til alls að þrátt fyrir að við vitum hvert vandamálið er þá er ekki verið að gera neitt til að leysa vandann. Vissulega eru verkefni í gangi en þau koma ekki til með að vera lausn. Þau munu ekki koma í veg fyrir neitt, þau passa upp á það að vandamálið versni kannski ekki. Við erum samt ekki viss um það, það gæti vel versnað. Það gæti batnað smávegis en það leysir ekki vandamálið.

Virðulegi forseti. Við erum einfaldlega með stjórnvöld sem lofa en í verki eru efndirnar: Engar framfarir. (Gripið fram í.)