150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:51]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að hefja máls á þessu og þakka fyrir að taka þátt í umræðunni. Á vef Sjúkratrygginga Íslands er frétt frá 15. janúar sl. um að Sjúkratryggingar hafi undirritað 43 samninga um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á landinu til tveggja ára en samningslaust var um þjónustu þeirra á árinu 2019. Samhljóða samningar voru gerðir við hvern rekstraraðila hjúkrunar- og/eða dvalarrýma en ekki rammasamningur við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samtök íslenskra sveitarfélaga eins og tíðkast hefur. Samningar ná alls til 2.468 hjúkrunar- og dvalarrýma og nema um 32,5 milljörðum kr. á ári á verðlagi ársins 2020. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem áhersla er lögð á stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma og ætlunin er að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimilanna og efla aðra þjónustuþætti, svo sem endurhæfingu, heimahjúkrun og dagþjálfun.

Virðulegi forseti. Síðastliðnar tvær vikur hefur mikið verið rætt um erfiðleika á bráðadeild Landspítalans. Talað er um fráflæðisvanda Landspítalans og hið aukna álag sem fylgir honum. Veikir, aldraðir einstaklingar liggja inni, bæði á bráðadeildum og eins á öðrum deildum spítalans, þar sem ekkert hjúkrunarrými hefur verið laust. Nú hillir undir opnun hjúkrunarrýmis á Sléttuvegi sem léttir á biðlistunum en þörfin er mikil. Á sjúkrahúsinu á Akranesi eru 15 biðrými sem hafa verið nýtt meðan verið er að byggja upp hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu nýs rýmis við Sléttuveg verða þessi biðrými lögð niður. Það hefði kannski verið ráð að halda þeim opnum. Þessi deild er vel mönnuð og því ekkert að vanbúnaði að halda þeim opnum áfram. Enda þótt verið sé að opna ný rými hér er þörfin næg, sérstaklega í ljósi þess að biðlisti eftir hjúkrunarrýmum á Akranesi hefur lengst töluvert og er þar um fleiri staði að ræða. En það er verið að vinna í þessum málum og hefur gengið ágætlega hingað til.