150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir þessa umræðu og ráðherra að taka þátt í henni. Það hefur komið hérna þetta ljóta orð, fráflæðisvandi. Maður getur varla sagt þetta, þetta er svo ljótt orð. En ég held og ég er eiginlega sannfærður um að það hafi verið einhver misskilningur um þetta orð. Það átti að vera fáfræðivandi ríkisstjórnarinnar, þaðan komi þetta. Og ég get rökstutt það vegna þess að það hefur aldrei verið gerð nákvæm kostnaðargreining. Hvað kostar öll þjónusta við einstakling sem þarf á hjúkrunarheimili að halda? Þetta hafa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu gert kröfu um því að þau hafa bent á það ár eftir ár að við erum að skera niður og þau fá ekki þá fjármuni sem til þarf. Nú er þetta komið á það stig að þeir eru farnir að tala um að það þurfi að senda einstaklingana á sjúkrahús sem er rosalega dýr kostur og er eiginlega fáránlegur kostur.

Ráðherra kom inn á það að efla heimahjúkrun. Jú, það væri nú rosalega flott en þar hefur komið upp alvarlegur vandi. Þegar fólk hefur verið útskrifað af sjúkrahúsi, eldri borgarar, komnir heim og eru kannski einir og þeir geta sér enga björg veitt, eiga ekkert í ísskápnum til að borða, enginn fylgist með þeim og ekkert eftirlit. Einstaklingar sem eru eiginlega einir heima og svelta. Þar er stórt vandamál og það þarf auðvitað að laga. Það er af nógu að taka. Þetta er vandamál sem þarf að leysa en þessi ríkisstjórn getur það greinilega ekki.