150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel afar tímabæra. Þar er ég aðallega að tala um vanda hjúkrunarheimila vítt og breitt um landið. Ég læt nægja hér í þessari ræðu að fjalla aðeins um hann, enda af nógu þar að taka. Nú eru að verða tvö ár, herra forseti, frá því að samningaviðræður Sjúkratrygginga ríkisins, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga sigldu í strand. Síðan hafa enga viðræður verið í gangi. Svörin eru þau að stökum hjúkrunarheimilum sé frjálst að semja sérstaklega um sína þjónustu. Hér virðist ríkið beita sömu aðferð og strúturinn: Þegar hann hræðist eitthvað stingur hann hausnum í sandinn. Landsmenn eru almennt að eldast, meðalaldur fer hækkandi, en sem betur fer er heilsa eldra fólks að verða betri. Það getur verið lengur inni á heimilum sínum og það viljum við öll. En þegar heilsan fer að bila eiga eldri borgarar auðvitað rétt á því að fara inn á slík heimili þar sem annast er um þá með viðunandi hætti. En í stað þess, eins og allir vita, hefur veikt eldra fólk verið sett inn á spítalana með tilheyrandi kostnaði. Þessum vanda verður auðvitað að taka á og það verður líka að taka á vanda hjúkrunarheimila og semja við hjúkrunarheimilin um þá þjónustu sem þau veita. Samkvæmt úttekt óháðra aðila er sú þjónusta dýrari en ríkið greiðir fyrir í dag. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að ganga til samninga við málsvara þessara heimila í þessa veru.