150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í máli annarra þingmanna var nýlega gert samkomulag milli Sjúkratrygginga og rekstraraðila hjúkrunarheimilanna. Hluti af því samkomulagi um rekstur heimilanna er að farið verði í heildstætt mat á rekstrargrunni hjúkrunarheimilanna eins og margir þingmenn hafa tæpt á. Þetta er grundvallaratriði og er m.a. í stjórnarsáttmálanum af því að menn þurfa náttúrlega að byggja á raunupplýsingum þegar þeir meta kostnaðinn.

Farið hefur verið yfir ýmislegt hérna, m.a. hefur því verið haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekkert gert í að ráðast á vandann. Auðvitað er það ekki rétt. Til dæmis er hægt að benda á að á tíma þessarar fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að byggð verði 780 hjúkrunarrými, þar af 560 ný. Það eru alveg nokkur pláss. Ég held að það séu fleiri pláss en nokkurn tímann hafa verið byggð á fjögurra ára tímabili á Íslandi.

Meginmálið er kannski að við þurfum nýja hugsun í þennan málaflokk. Við getum ekki haldið endalaust áfram með sama módelið og haldið að lausnin verði að byggja endalaust fleiri hjúkrunarrými. Við erum þegar komin með fleiri hjúkrunarrými á haus en nágrannalöndin þrátt fyrir að við séum töluvert yngri þjóð. Það hefur raunar verið þannig árum saman. Einhvers staðar er vitlaust áætlað og vitlaust gefið í þessu kerfi. Stóri fíllinn í herberginu er líklega hvað við notum lítið af fjármagni okkar í heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þar þurfum við að gera stórátak og þar er sennilega tækifærið (Forseti hringir.) sem við sem samfélag höfum bæði til þess að bæta þjónustuna og verja fjármunum af skynsemi, þessum þjónustuþegum til heilla.