150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mér heyrðist hæstv. ráðherra tala um vanrækslulista fyrri ríkisstjórnar. Nú vona ég að hún sé það metnaðarfull að hún vilji ekki skilja eftir sjálfa sig langan vanrækslulista. Það er auðvitað góðra gjalda vert að við byggjum ný rými en það er til lítils ef við útvegum ekki fjármagn til að reka þau. Það er innbyggður rekstrarhalli í kerfinu eins og það er í dag og þetta er sérstaklega óréttlátt vegna þess að rekstraraðilar eru nokkrir. Við erum t.d. með sjálfseignarstofnanir og einkaaðila, við erum með sveitarfélög og síðan eru önnur hjúkrunarheimili rekin af heilbrigðisstofnunum. Þetta er svo mikil mismunun á milli sveitarfélaga að við það verður ekki unað. Ef við tökum t.d. Akureyri þá greiðir bærinn um 400 millj. kr. á hverju einasta ári sem þarf þá að taka úr annarri þjónustu, lögbundinni eða ólögbundinni, af börnum og unglingum, úr menningu, listum, íþróttum. Ef við tökum Vopnafjörð þar sem er lítið hjúkrunarheimili, þá dóu þrír á síðasta ári. Við það minnkaði fjármagnið en það þurfti náttúrlega sama mannskap til að reka heimilið áfram. Þetta leggst á sveitarfélögin og þetta er óboðlegt.

Vanrækslulisti hæstv. heilbrigðisráðherra verður svo sannarlega hafður í huga þegar næsta ríkisstjórn tekur við ef hún ekki leysir þetta vandamál.