150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðeins áfram með skortinn á framförum. Nýr Landspítali var löngu tímabær. Að byggja nýjan Landspítala er ekki framför, það er uppgreiðsla á skuld. Við eigum í þeim vanda með hjúkrunarheimilin eða heimaþjónustuna að við erum ekki að byggja upp hagkvæmar rekstrarstærðir. Það hefur ítrekað verið bent á það í umfjöllun um þessi mál í fjárlaganefnd af aðilum innan velferðarfyrirtækja. Það er vissulega ekki vandalaust út af fyrir sig ef litið er til landsbyggðarinnar þar sem ekki er sjálfsagt að byggja 90 rýma hjúkrunarheimili. Það væri einfaldlega kannski stærra en svæðið kallar á en samt er þetta eitthvað sem þarf að huga að. Í umræðunni hefur verið notað orðið fráflæðisvandi og það er dálítið áhugavert að skoða notkun þess orðs. Ef maður fer á tímarit.is og flettir því upp sést að það er fyrst notað árið 1998, næst árið 2006 og 2013 kemur nýjasta hrina orðsins í þeirri birtingarmynd sem við glímum við núna. Þannig að vandamálið, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, er ekki nýtt. Þetta er gamalt vandamál sem við erum enn að reyna að glíma við. Síðan þá hafa komið margar fjármálaáætlanir og mörg fjárlög og aldrei hefur verið lögð til lausn á þessu vandamáli. Við erum í ákveðnu sjálfskaparvíti. Það er búið að gera áætlanir og fjárlög síðan þá sem leysa þetta ekki. Ráðherra segist vera bundinn af fjármálaáætlun og fjárlögum í flutningsræðu sinni en gleymir því að ráðherra er hluti af meirihlutastjórn sem semur þessar sömu bindingu sem ráðherra kvartar yfir.