150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu. Þegar við horfum á þann vanda sem blasir við okkur hvað hjúkrunarrými fyrir eldri borgara varðar er alveg ljóst að núverandi stefna er gjaldþrota. Hún verður ekki bara rakin til núverandi ríkisstjórnar. Þetta á sér talsvert lengri sögu. Það er talað um að vandinn verði ekki aðeins leystur með því að byggja ný hjúkrunarrými. Það má vel vera rétt en staðreyndin er sú að við höfum engan veginn haldið í við öldrun þjóðarinnar með byggingu nýrra rýma á undanförnum árum. Nettófjölgun hjúkrunarrýma á áratug er 90. Á sama tíma má ætla að þörfin hafi vaxið um 400–500 rými. Það endurspeglast líka í því að 400 manns biðu eftir hjúkrunarrými fyrir rúmu ári. Nýrri tölur höfum við ekki. Ríkisstjórnin boðar stórsókn í byggingu nýrra rýma en það er einfaldlega ekki verið að byggja þau. Þau eru hvergi á sjóndeildarhringnum og þessi vandi mun því bara vaxa á komandi árum. Á sama tíma stöndum við í stríði við rekstraraðila núverandi hjúkrunarrýma og erum að grafa undan rekstrargrundvelli þeirra með því að þrengja sífellt meira og meira að grunnrekstri þeirra. Það má benda á að flest hjúkrunarheimili á síðasta ári voru rekin með halla. Samtök þessara sömu rekstraraðila hafa lýst því yfir að nýgerður samningur sé lakari en sá sem í gildi var. Það er þrengt enn frekar að rekstrargrundvelli þessara rýma.

Hvernig ætlum við þessum aðilum að taka við fleiri eldri borgurum inn í hjúkrunarrýmin á sama tíma og þau eru öll rekin með halla? Ef við rækjum almannatryggingar með sama hætti og við rekum hjúkrunarrými værum við að senda eldri borgurum þessa lands þau skilaboð í byrjun hvers árs hvenær þau mættu vænta þess að komast á eftirlaun, hvort það væri um sjötugt eða 75 ára. Auðvitað byggjum við ekki almannatryggingar upp þannig og við getum heldur ekki byggt upp (Forseti hringir.) hjúkrunarrýmaþjónustu með þessum hætti. Þetta eru réttindi fólks sem hefur greitt skatta og skyldur alla sína starfsævi hérna og okkur ber skylda til að hlúa vel að því á efri árum. Hér verðum við einfaldlega að standa okkur betur.