150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um hjúkrunar- og dvalarrými. Það er svolítið sérstakt að Flokkur fólksins lagði fram tillögu á haustþingi um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Það væri aldeilis þörf á að styðja það þar sem þá væri gengið frá því í eitt skipti fyrir öll að það yrði skylda ríkisins að sjá til þess að fólk biði ekki endalaust eftir hjúkrunarrými. Það er einnig bið eftir svokallaðri hvíldarinnlögn og við vitum líka að það hafa verið stundaðir svokallaðir hreppaflutningar á eldri borgurum, hjón aðskilin og annar einstaklingurinn fluttur landshorna á milli. Við eigum alls ekki að haga okkur svona í nútímasamfélagi og verðum að leysa þennan vanda.

Þá hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa aldraðra. Það segir sig sjálft af umræðunni hér í dag að ekki veitir af því að hafa einstakling sem sér um og gætir hagsmuna eldri borgara þessa lands. Það er bara nauðsynlegt að sjá til þess. Ef þetta mál okkar verður samþykkt ber stjórnvöldum, eðli málsins samkvæmt, að fylgja lögunum. Að öðrum kosti gætum við orðið skaðabótaskyld gagnvart þeim sem hafa orðið fyrir tjóni vegna meints lögbrots. Ef stjórnvöld færu að settum lögum um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, sem Flokkur fólksins lagði fram, bæri þeim skylda til að gera þetta. En það verður auðvitað ekki vegna þess að eins og ég sagði er aðalvandamálið Landspítalinn. Þar sitja inni eldri borgarar í dýrasta úrræðinu og svo virðist sem þessi ríkisstjórn sé tilbúin að henda krónunni og reyna að spara aurinn.