150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram. Mér finnst hv. þingmenn vera býsna hnitmiðaðir í sínum skoðunum og leggja jafnvel til lausnir. Ég hef auðvitað fleiri spurningar eftir þessa umræðu en ég hafði áður, liggur við. Hæstv. ráðherra sagði okkur að það væru formleg samskipti milli Landspítala og annarra stofnana. Mér þætti vænt um að fá að heyra hvaða samskipti það eru og hvenær vænta megi svara. Síðan er staðan sú að ef ekki hefði verið samið við þessi hjúkrunarheimili beint, getum við þá lesið það út úr því að þau hefðu hreinlega ekki fengið krónu? Er þetta enn einn plásturinn? Af hverju var ekki samið við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu? Af hverju var valið að fara um leið að semja beint við þessi hjúkrunarheimili? Það hlýtur að liggja eitthvað undir, að ætlunin sé að gera einhverja aðra hluti í framhaldinu.

Síðan vil ég endilega nefna að við stöndum einnig frammi fyrir því að það er búið að skera niður endurhæfingu. Það eitt og sér, að efla endurhæfingu, myndi skipta miklu máli vegna þess að rannsóknir sýna að fólk sem nýtur þess að fá endurhæfingu fer jafnvel ekki eins fljótt inn á hjúkrunarheimili og áður.

Að lokum þetta: Rými á bráðadeild Landspítala er upp á 210.000 kr. sólarhringur. Legurými á legudeild og lyflækningadeild 150.000 kr. Hjúkrunarheimili eru í kringum 40.000 kr. sólarhringurinn. Þetta finnst mér segja allt sem segja þarf.

Eitt í allra síðasta sinn: Hvernig er með þessi nýju rými sem hæstv. ráðherra ræddi hér? Koma þau á þessu kjörtímabili eða því næsta?