150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og Endurupptökudóm. Mér leikur rosalega mikil forvitni á að vita og spyr því ráðherra hvers vegna í ósköpunum dómarar í viðkomandi dómstólum séu í þessum málum. Er ekki hægt að fá hlutlausa aðila, prófessora í háskólanum eða einhverja aðra en þá sem eru búnir að koma að viðkomandi málum? Það væri mun eðlilegra og ég óttast þess vegna að í málum eins og Geirfinnsmálum hefði komið upp ákveðið vandamál í sambandi við þau. Það sem mér þykir langsamlega alvarlegast í þessu máli er 8. gr. þar sem stendur orðrétt:

„Gjafsókn verður þó ekki veitt vegna endurupptökumála.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir að þeir sem eru verst settir í þessu þjóðfélagi og hafa ekki efni á lögfræðingum eru klipptir út þó að mannréttindi séu brotin á þeim. Þeir hafa ekki séns á að reka málið fyrir dómi. Hvers lags lýðræðisríki er það? Hvernig í ósköpunum er hægt að búa til dómstól sem á eingöngu að vera fyrir þá sem hafa efni á að fara fyrir hann?

Þarna úti er hellingur af fólki sem er verið að brjóta á gjörsamlega endalaust. Þar tala ég sérstaklega um tryggingafélög þar sem er brotið skelfilega á réttindum tjónþola. Þetta fólk fær ekki sinni gjafsókn til að berjast við tryggingafélögin og í þessu frumvarpi fær það fólk ekki gjafsókn til að reyna að endurflytja málið.