150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og Endurupptökudóm. Ég hef gagnrýnt að gjafsókn skuli ekki koma til greina til að biðja um endurupptöku. Ástæða þess að ég er ósáttur við þessa málsmeðferð er dómsmál sem féll í Hæstarétti Íslands, dómsmál sem er þess eðlis að Persónuvernd var búin að úrskurða um að fallinn væri dómur sem sagði að persónuvernd hefði verið brotin gróflega með því að fara í viðkvæmar sjúkraupplýsingar á sjúkrahúsi. Þarna var einstaklingur að vinna utan sjúkrahússins, hafði aðstöðu inni á sjúkrahúsinu og gat þar af leiðandi náð í það sem hann vildi og notað eins og hann vildi án undirskriftar viðkomandi sjúklings, án þess að upplýsa hann um hvað hann væri að taka, án þess að viðkomandi hefði hugmynd um að hann væri að taka þessi gögn. Ekki nóg með það heldur kom hann hreinlega með rangar upplýsingar úr gögnunum og Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að þetta stæðist ekki persónuverndarlög.

Hvað gerði Hæstiréttur? Hann hunsaði þetta gjörsamlega, sagði eiginlega bara í stuttu svari: Þetta er í lagi í þetta sinn. Nú spyr maður: Hversu margir einstaklingar hafa lent í þessu? Ég veit það ekki. En ég veit a.m.k. um eitt mál. Ef fleiri einstaklingar hafa lent í þessu, hvernig í ósköpunum eiga þeir að geta náð rétti sínum og farið núna fyrir Endurupptökudóminn ef þeir eru í þeirri aðstöðu að þeir hafa ekki fengið neitt út úr sínu tjónamáli, eru komnir á örorku og eiga ekki séns á að fjármagna þessi mál sjálfir?

Við búum í réttarríki og við eigum öll að vera jöfn fyrir lögunum. Stjórnarskráin á að vernda okkur því að það er bannað að mismuna. Við erum samt á fullu að mismuna í dag. Við erum með fullt af fólki þarna úti sem hefur ekki möguleika á að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þess að það hefur ekki efni á því. Það er ömurlegt og það segir okkur líka að við þurfum í því samhengi að taka gjafsóknarmálin upp. Það verður að sjá til þess og tryggja í eitt skipti fyrir öll, hvort sem það er fyrir venjulegum dómstólum eða Endurupptökudómi, að þeir sem þurfa mest á því að halda geti hreinlega leitað réttar síns. Ég vona heitt og innilega að dómsmálaráðherra fari í það stóra mál að endurskoða að fullu skaðabótalögin og gjafsóknarlögin og sjá til þess að þeir sem eiga fullan rétt fyrir dómstólum á að fá bætur og annað vegna þess að þeir hafa ekki gert neitt annað af sér en að lenda í slysi geti leitað réttar síns og fengið þann rétt og geti það hvort sem efnahagurinn leyfir eða ekki. Ef efnahagurinn leyfir það ekki á ríkið að sjá til þess að þeir fái gjafsókn. Við verðum að átta okkur á því líka að ef gjafsókn er veitt í málum eins og skaðabótamálum greiðir viðkomandi tryggingafélag gjafsóknina til baka ef málið vinnst. Í flestum tilfellum vinnast þessi mál þannig að ríkið er í sjálfu sér ekki að gera annað en að lána peninga tímabundið til að viðkomandi geti náð rétti sínum. Það hlýtur að vera hlutverk ríkisins að sjá til þess.