150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Eins og kom fram í máli hans gengur þetta frumvarp út á það að fella brott 5. gr. í lögum um Kristnisjóð frá 1970 en í þeirri grein segir að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.

Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að gera sér grein fyrir tilurð þessa ákvæðis, hvers vegna það var sett á sínum tíma. Árið 1907 fékk ríkið umsjón með jarðeignum kirkjunnar sem átti þá 25% alls lands. Á þessum árum, eða í kringum 1970 þegar lögin eru samþykkt, var umræðan um jarðeignir kirkjunnar hafin og stóð í raun alveg fram til 1997 með ýmsum skýrslugerðum, nefndarstörfum og öðru slíku. Ríkið fær árið 1997 jarðir kirkjunnar til eignar gegn endurgjaldi í formi launa til tiltekins fjölda presta og starfsmanna og þetta var allt undirritað í svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi sem við þekkjum og fékk reyndar svolitla umræðu í þinginu fyrir jól í tengslum við viðbótarsamkomulag sem ríkið gerði við kirkjuna í september á síðasta ári við kirkjujarðasamkomulagið. Árið 1970 þegar lögin um Kristnisjóð voru sett stóðu fjölmörg sveitarfélög á kirkjujörðum og í ljósi þess þótti eðlilegt og í raun borðleggjandi að sveitarfélögin létu kirkjunni í té lóðir endurgjaldslaust. Þetta er sögulega mikilvægt atriði sem rétt er að komi fram í þessari umræðu, hvers vegna ákvæðið var sett á sínum tíma. Þetta undirstrikar að mínum dómi að ákvæðið eigi einungis við um þjóðkirkjuna.

Nú þekkjum við það að borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkt í september 2013 úthlutun á lóð við Suðurlandsbraut hér í borg til Félags múslima á Íslandi. Hv. þingmaður og framsögumaður þessa frumvarps kom aðeins inn á þetta áðan í máli sínu. Það mál fékk töluverða umræðu í samfélaginu og var samþykkti í borgarráði af fulltrúum Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það er rétt að það komi fram að af minni hálfu eru það sjálfsögð mannréttindi að fólk og þar með talið þeir sem eru t.d. íslamstrúar fái að byggja hús fyrir trúariðkun sína. Það hefur hins vegar verið deilt um það hvort lögin um Kristnisjóð skyldi sveitarfélög til að gefa lóðir undir mosku, sýnagógu eða hof, svo dæmi sé tekið. Ég tel svo ekki vera og vísa til þess að túlka ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan og þess sem ég gat um í upphafi. Kirkjur eru guðshús kristinna manna og tilbeiðsluhús múhameðstrúarmanna kallast moskur. Ákvæðið segir því ekkert um að sveitarfélögum sé skylt að gefa lóðir undir sýnagógur, moskur eða hof, enda liggur enginn sögulegur eignarréttur á jörðum þar á bak við. Það er rétt að hafa það í huga í þessu sambandi. Eflaust þykir einhverjum óréttlæti felast í því. Ég tel svo ekki vera.

Það má færa fleiri rök fyrir því að ákvæði 5. gr. laga um Kristnisjóð eigi einungis við um kirkjur þjóðkirkjunnar. Lögin um Kristnisjóð voru sett til að fjalla sérstaklega um skipulag þjóðkirkjunnar, einnig er minnst á lögboðin prestssetur sem vísar sérstaklega til þjóðkirkjunnar.

Í þessu tiltekna dæmi varðandi úthlutun borgarráðs er ljóst að ráðið leggur að jöfnu stöðu og hlutverk þjóðkirkjunnar og stöðu og hlutverk annarra trú- og lífsskoðunarfélaga. Frá mínum sjónarhóli er það sérstök afstaða að leggja að jöfnu stöðu og hlutverk þjóðkirkjunnar og stöðu og hlutverk annarra trú- og lífsskoðunarfélaga. Í landinu eru kirkjur á vegum þjóðkirkjunnar 270 talsins og tíðni helgihalds fer eftir fjölda sóknarbarna en alls staðar skal vera reglulegt helgihald. Á hverju ári eru u.þ.b. 8.000 athafnir á vegum kirkjunnar. Í kjölfar hins hörmulega slyss í Hafnarfirði nú fyrir skömmu var Hafnarfjarðarkirkja vettvangur samfélagsins. Þar fór fram bænastund þar sem prestar í Hafnarfirði, Fríkirkjunnar og þjóðkirkjunnar, tóku á móti fólki og leiddu saman stund og fleiri hundruð manns mættu. Hugur okkar allra er að sjálfsögðu hjá ungmennunum og fjölskyldum þeirra og vinum. Þessi harmleikur birtir ekki eingöngu þá mikilvægu stöðu sem þjóðkirkjan hefur í okkar samfélagi heldur einnig þær skyldur sem hún axlar í samfélaginu. Hún er opinn faðmur, ef svo má segja, opinn vettvangur í gleði og í sorg. Þarna er það ekki spurning um trú, trúfélagsaðild, afstöðu eða lífsskoðun. Hún er vettvangur mennskunnar ef við getum sagt sem svo og þess sem sameinar okkur sem manneskjur. Það hlýtur að vera mikilvægt að hafa þetta í huga þegar skipulagsmál sveitarfélaga eru annars vegar og hvort gert sé ráð fyrir kirkjunni í þeirri heildarmynd. Á hinn bóginn má hins vegar segja að kirkjubyggingar séu orðnar margar og þær eru víða. Ólíklegt er að nýjar kirkjubyggingar komi til með að rísa í sveitarfélögum landsins svo einhverju nemi.

Herra forseti. Lokaorð þessa lagafrumvarps vekja nokkra undrun að mínu mati. Áður en ég kem sérstaklega að því vil ég nefna eitt í því sambandi. Það segir hér alveg undir lokin að óhætt sé að segja að ætlun löggjafans hafi aldrei verið sú að valda slíkum samfélagsnúningi þegar ákvæðið var fyrst sett í lög. Ég held einfaldlega að það hafi fyrst verið með samþykkt borgarráðs, sem ég rakti í ræðu, sem þessi samfélagsnúningur hófst. Hann hófst ekki með þessari lagasetningu. Sú víðtæka túlkun sem borgarráð kemur á framfæri hefur valdið þeim núningi eins og hv. þingmaður var að greina frá í ræðu sinni og er í lokaorðum greinargerðarinnar með frumvarpinu. En það sem vakti undrun mína, herra forseti, í lokaorðunum er það sem segir:

„Trú- og lífsskoðunarfélög eru í eðli sínu umdeild og stutt getur verið í hatursfulla orðræðu sem er á skjön við markmið opinnar og upplýstrar umræðu.“

Þetta eru að mínu mati, herra forseti, einhver undarleg moðsuða og greinilega ætluð til einhverra skammtímavinsælda. Það er hægt að setja alla félagshópa inn í þessa setningu í stað trú- og lífsskoðunarfélaga. Til dæmis gæti setningin litið svona út: Stjórnmálasamtök eru í eðli sínu umdeild og stutt getur verið í hatursfulla orðræðu sem er á skjön við markmið opinnar og upplýstrar umræðu. Jafnvel er hægt að segja: Píratasamtökin eru í eðli sínu umdeild og stutt getur verið í hatursfulla orðræðu sem er á skjön við markmið opinnar og upplýstrar umræðu, ef menn vilja fara þá leið og ná einhverjum ákveðnum fyrirsögnum í þeim efnum.

Herra forseti. Ég tel þessa tillögu vera byggða á misskilningi.