150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[17:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir. Það er ekki einu sinni víst að ég þurfi svo langan tíma. Ég hef óskað eftir að taka til máls hér á eftir og mun þá greina frá afstöðu minni til þessa frumvarps og þá kannski almennt um gatnagerðargjöld. En ég hjó eftir einu í ræðu þingmannsins sem mér þótti mjög miður og það var að hv. þingmaður taldi ekki að nýjar kirkjur myndu rísa. Ég verð að viðurkenna að mér fannst miður að heyra hv. þingmann tala með þeim hætti því að ég held einmitt að töluverð þörf sé á kirkjum og annars konar trúarhúsum. Ég held að trúin, æðri máttur, skipti mjög marga miklu máli, hvort sem þeir tilheyra þjóðkirkjunni, eins og hún er skilgreind núna, eða öðrum trúarsöfnuðum.

Ég vildi kannski sérstaklega vekja máls á þessu vegna þess að ég bý í sveitarfélagi sem hefur stækkað gríðarlega á síðustu árum. Í mínu sveitarfélagi, Mosfellsbæ, eru tvær kirkjur í dag sem komnar eru vel til ára sinna, virkilega fallegar og góðar byggingar en engan veginn nægjanlega stórar til að hýsa þann söfnuð sem býr í Mosfellsbæ. Það er ein af mínum helstu óskum að fljótlega rísi kirkja í miðbænum í Mosfellsbæ þar sem gert hefur verið ráð fyrir lóð fyrir þá ágætu kirkju.

Mig langaði að heyra hvort hv. þingmaður, vegna þess að ég veit að hann hefur mikinn áhuga á þessum málaflokki, muni ekki koma með mér í lið og berjast fyrir því að ný og glæsileg kirkja, alla vega ein, rísi á höfuðborgarsvæðinu á næstunni.