150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil bara koma því að hér að ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að þeir sem hafa aðra trú en kristna reisi sín bæna- og tilbeiðsluhús. Það eru bara sjálfsögð mannréttindi að fá að gera það. Þetta mál snýst einfaldlega um túlkun á því ákvæði sem við ræðum hér og flutningsmenn leggja til að falli niður, þ.e. 5. gr. laga um Kristnisjóð. Ég tel að ákvæðið hafi verið túlkað allt of víðtækt og á þeim sögulegu forsendum að kirkjan, eins og ég nefndi áðan, átti þarna jarðir á sínum tíma og þess vegna var þetta ákvæði sett inn þegar þessi umræða er í gangi með kirkjujarðirnar — og þær voru í umsjón ríkisins, ég tek það fram að þær voru ekki í eigu ríkisins á þeim tíma þegar þetta ákvæði er sett. Sögulega séð eiga önnur trúar- og lífsskoðunarfélög að mínu mati ekki rétt samkvæmt þessu ákvæði.