150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvar á maður að byrja? Við getum rætt þetta lengi og munum eflaust gera það. En ég fagna því að fá tvær mínútur í stað einnar þótt það lýsi sér í smá ójafnræði milli einstakra þingmanna. Hv. þingmaður hefur nefnt nokkrum sinnum, bæði í ræðu og andsvörum, sögulegar forsendur fyrir þessu fyrirkomulagi. Mér þykja það mjög áhugaverð rök. Mér finnst þau áhugaverð vegna þess að mér finnst þau hvergi annars staðar ganga upp, ekki í neinu öðru samhengi. Það eru sögulegar forsendur fyrir því að karlmenn stjórni einvörðungu og engar konur stjórni nokkurn tíma í landinu. Það eru mjög ríkar sögulegar forsendur fyrir því. En þær eru slæmar. Hvað gerum við þá? Jú, við breytum þeim. Það voru sögulegar forsendur fyrir ásatrú á sínum tíma og kristni tekin upp á hátt sem við þekkjum vonandi öll hvernig var. Það eru ákveðnar sögulegar forsendur fyrir því að styðja sérstaklega við ásatrú líka og reyndar er það að mínu mati aðeins meira í nánd við það að vernda eitthvað sem virkilega þarf að vernda til að það eigi tilvist yfir höfuð, eins og íslenska tungu eða því um líkt. Það eru sögulegar forsendur fyrir því að hérna á Íslandi hefur í gegnum aldanna rás, í meira en 1000 ár, næstum eingöngu búið svokallað hvítt fólk. Það þýðir ekki að við þurfum að passa að það verði alltaf þannig, er það?

Sögulegu forsendurnar sem hv. þingmaður fer hérna út í, frá 1907 og þar áður, byggja á því að fyrirkomulagið sem var ákveðið þá, vegna þess að það byggi á viðhorfum og viðmiðum sem þá voru og það standist lagabókstaf í dag, sé þar af leiðandi réttmætt fyrirkomulag. Þar er ég ósammála hv. þingmanni. Sögulegar forsendur, sögulegir samningar þýða ekki að þeir séu réttlátir, þýðir ekki að þeir séu góðir, þýðir jafnvel ekki að þeir standist lög.

Það var kaþólsk kirkja hérna einhvern tíma og síðan kom lútersk kirkja einhvern tíma. Það voru ákveðnar sögulegar forsendur fyrir því að hér væri kaþólsk ríkiskirkja eða þjóðkirkja eða hvað fólk vill kalla það. En við breyttum því. (Forseti hringir.) Væntanlega telur hv. þingmaður það hafa verið til hins betra. Það sem mér finnst áhugavert er að hv. þingmaður virðist verja þarna sögulegar forsendur á þeim forsendum einum (Forseti hringir.) að hann sjálfur tilheyrir þjóðkirkjunni. (Forseti hringir.) Ekki vegna þess að hann telur þetta skynsamlegt fyrirkomulag í eðli sínu án tillits til eigin trúarsannfæringar.