150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það var svolítið einkennileg nálgun hjá hv. þingmanni að ég væri að koma í ræðustól Alþingis og tala fyrir því að þetta ákvæði verði áfram í gildi vegna þess að ég tilheyri þessum kristna hluta sem hv. þingmaður er að nefna. Ég skil ekki alveg þann málflutning. Ég er búinn að vísa til þess sem var þegar þetta ákvæði er sett á sínum tíma og hv. þingmaður hlýtur að horfa til þess. Hann sagði einmitt í ræðu að hann hefði ekki fundið nein rök fyrir því hvers vegna þetta ákvæði var sett á sínum tíma. Nú hef ég upplýst hann um það. Á þeim tíma á kirkjan þessar jarðir, hún á þær. Jarðirnar eru í umsjón ríkisins. Það er síðan 1997 sem ríkið eignast jarðirnar. Þess vegna er hægt að fullyrða það hér að þegar ákvæðið var sett var ekkert óeðlilegt við það. Það er ekkert óeðlilegt við það að kirkjan sem hafði þá fært ríkissjóði jarðirnar til umsjónar óski eftir því að fá lóð undir kirkju í viðkomandi sveitarfélögum. Það er bara fullkomlega eðlilegt. Ef ég hefði staðið þarna fyrir hönd kirkjunnar hefði ég talið það fullkomlega eðlilegt. Ég verð að segja það að hv. þingmaður hlýtur að þurfa að horfa í þann þátt málsins.

Við getum svo deilt um það hvort ákvæðið hafi síðan átt að falla niður við tilkomu kirkjujarðasamkomulagsins eins og hv. þm. Björn Leví minntist á áðan, það má vel vera. En ég tel það mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvers vegna ákvæðið er sett. Það gildir um þjóðkirkjuna og það er allt of víðtæk og ekki réttmæt túlkun að mínu mati að segja að ákvæðið gildi um önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Ég hef gert grein fyrir því og ég stend við það.