150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu úr hófi fram en það ber náttúrlega nokkuð á því að það er mikil iðn hjá sumum hv. þingmönnum að fjalla með þeim hætti sem hér er gert af hálfu hv. flutningsmanna, ekki síst úr flokki Pírata. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé ekki í síðasta sinn sem við fjöllum um þessi mál. Við fjölluðum nýlega ítarlega um þau eins og hefur verið rifjað upp. Ég verð að segja að sumt kemur manni á óvart. Það kemur mér svolítið á óvart hverjir eru flutningsmenn þessa lagafrumvarps. Það kemur ekkert á óvart að hv. þingmenn Pírata séu þar og alls ekki hver er 1. flutningsmaður en ég tek eftir því að þarna er heill þingflokkur Viðreisnar og vantar engan og svo er þarna helmingurinn af þingflokki Flokks fólksins sem maður hefði ekki átt von á að gengi fram á þennan hátt.

Það hefur verið rakið mjög ítarlega og náttúrlega af yfirburðaþekkingu af hv. þm. Birgi Þórarinssyni hvernig 5. gr. laga um Kristnisjóð er komin til. Hún á sér sögulegar rætur. Hún á sér rætur í stórfelldri eignatilfærslu sem fór fram á milli kirkjunnar sem veitanda og ríkisins sem viðtakanda. Þetta eru staðreyndir sem allir sem vilja vita viðurkenna og mega viðurkenna en það er öllum frjálst að berja hausnum við steininn og kannast ekki við þetta. Spurningin sem hér er uppi lýtur líka, ef maður mætti bregða ljósi á hana frá annarri átt, að lögmæti ákvarðana opinberra aðila. Það er ekki heimilt af hálfu ríkisins að ráðstafa eignum nema það sé lagaheimild. Ríkið getur ekki tekið lán nema það sé lagaheimild og getur ekki ráðstafað eignum nema það sé lagaheimild. Að sama leyti verður ráðstöfun á eignum sveitarfélaga að vera reist á sams konar lögmætisreglu. Sveitarfélag getur ekki tekið ákvörðun um það að afhenda einhverjum aðila, segjum peninga, verðbréf, fasteign, málverk og ekki heldur lóðir nema það sé heimild til þess.

Nú er það þannig að 5. gr. laga um Kristnisjóð hefur falið í sér lagalegan stuðning, lagalega undirstöðu þess að sveitarfélög ráðstafi lóðum fyrir kirkjur á þann hátt sem ákvæðið gerir ráð fyrir. Þarna er lögmætisreglan að störfum. Síðan hefur það verið mikill málflutningur hér að fjalla annars vegar um jafnræðisreglu stjórnarskrár og hins vegar ákvæði 62. gr. stjórnarskrár um að þjóðkirkjan njóti sérstakrar verndar o.s.frv., eins og menn þekkja. Þeir sem hafa fjallað um þetta á þann hátt, þar á meðal fulltrúar sumra sveitarfélaga, hafa skýlt sér á bak við það að þeim væri heimilt að ráðstafa eignum sveitarfélaga án nokkurrar lagaheimildar vegna þess að þarna væri jafnræðisregla í stjórnarskránni. En það er bara óvart þannig að þessi jafnræðisregla stjórnarskrár gengur ekki framar 62. gr. um þjóðkirkjuna. (Gripið fram í: Húrra.) Og af hverju segi ég það? Vegna þess að það liggja fyrir dómar. Það eru tveir hæstaréttardómar hér innlendir og a.m.k. einn dómur, ef ekki fleiri, dómar á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu. Þeir sem hafa gengið fram undir formerkjum þessa málatilbúnaðar og borið fyrir sig mismunun eða einhverju af því tagi og þess vegna ætti jafnræðisregla stjórnarskrárinnar að vera 62. gr. um þjóðkirkjuna sterkari, þeim málatilbúnaði hefur verið hafnað af dómstólum. Þetta geta menn kynnt sér og flett því upp um leið og þeir eru að velta fyrir sér fínni blæbrigðum í því hvernig beri að túlka lög og annað af því tagi sem menn almennt gera ekki nema þeir hafi a.m.k. af svo mikilli sannfæringu, sem má heyra í máli sumra, sérstaklega kynnt sér það.

Ég vil árétta og undirstrika, herra forseti, að um þessi mál verður ekki fjallað öðruvísi en að fjalla um lögmæti. Hin sögulega skýring á 5. gr. laga um Kristnisjóð sem hér er lagt til að verði felld brott er náttúrlega fullgild. En það vill þannig til að það eru fleiri sjónarmið sem þarna koma og sem styðja þá niðurstöðu að á grundvelli hennar er sveitarfélögum heimilt að ráðstafa lóðum undir kirkjur. Það er auðvitað réttur skilningur eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson fjallaði um af mikilli hind, lærdómi og þekkingu.

Ég á ekki von á því, herra forseti, að þeir sem ákafast beita sér í þessu eins og er gert með þessu frumvarpi muni láta nótt sem nemur hér heldur eigum við eftir að fjalla um þetta áfram en ég kvíði því ekki vegna þess að þessi málatilbúnaður er náttúrlega reistur, svo vægilega sé til orða tekið, á afar hæpnum forsendum. Það eru forsendur sem standast ekki sögulega skoðun, standast ekki skoðun á þeim feiknalegu verðmætum sem skiptu um hendur með hinni stórfelldu jarðatilfærslu frá kirkjunni til ríkisins og standast ekki skoðun á þeim dómum sem fyrir liggja í þessu efni og eru alveg skýrir og hverjum manni tiltækir og menn geta flett þeim upp.