150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:36]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans. Þar voru nokkrar spurningar og ég veit ekki hvort ég get svarað þeim öllum en ég mun gera mitt besta. Ég var ekkert að finna að því að menn væru að styðja hv. þingmenn Pírata í þessum málflutningi. Ég var bara að lýsa undrun minni á því hverjir þar væru að verki. Á sama hátt og þeir hinir sömu hafa fullkomið leyfi til að leggja lið hverju því máli sem þeir kjósa hef ég sömuleiðis leyfi til að lýsa undrun minni á því að þeir skuli leggja nafn sitt við mál af þessu tagi. Maður hefði kannski átt von á öðru frá slíkum aðilum og þá sérstaklega þeim sem ég nefndi.

Hv. þingmaður vekur upp ímyndaðar spurningar eða einhver dæmi og óskar eftir viðhorfi mínu til þeirra. Ég vil bara svara honum á þann hátt að það ríkir samningsfrelsi í viðskiptum hér á landi og mönnum er frjálst að semja um það sem þeir kjósa. Þá er gert ráð fyrir því að engin nauðung eða neitt slíkt skilyrði sé til staðar. Ef menn ganga til samninga þá geta þeir samið um það sem þeir vilja. Það eru að vísu einhver ákvæði til sem girða fyrir samninga um tiltekin efni en þetta er meginreglan. Ég þykist þess fullviss að hv. þingmanni sé þetta fullljóst og hann getur þess vegna svarað spurningum sínum sjálfur, ekkert síður en ég, hann áttar sig auðvitað á svarinu.