150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður vék sér undan því að svara spurningu minni enda veit hann að málflutningur hans er fráleitur. Nú veiti ég því samt athygli að í þessum lögum er í raun verið að mæla fyrir um lögskilyrta eignaupptöku. Þarna er sveitarfélögum sem eru með skipulagsvald, sem í mörgum tilfellum ef ekki öllum eru með eignarhald yfir sínu landi, gerð sú kvöð samkvæmt lögum að afhenda öðrum aðilum eignir sínar án endurgjalds í vissum tilfellum og í því tilfelli að um sé að ræða trúfélag sem uppfylli rétt skilyrði. Þetta hlýtur að ganga gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár en í öllu falli er fráleitt að reyna að halda því fram að eignaupptaka sem á sér stað undir merkjum trúfrelsis eða trúarlegrar réttlætingar sé eitthvað annað en eignaupptaka, bara af því að einhverjum finnst það.