150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Eftir stendur spurningin: Myndi 5. gr. laganna, sem hér er lagt til að verði felld brott, standast stjórnarskrá ef ekki væri fyrir 62. gr. stjórnarskrárinnar? Þetta er spurningin sem hv. þingmenn Miðflokksins neita að svara og af góðu tilefni, ég skil það mjög vel. Ég myndi heldur ekki svara því ef ég væri á þeirra línu vegna þess að það opinberar það og gerir alveg ljóst að jafnræði fyrir lögum er í grundvallaratriðum í ósamræmi við þjóðkirkjuákvæðið. Það er einungis vegna tilvistar þjóðkirkjuákvæðisins í stjórnarskrá sem þessi mismunun viðgengst og gengur upp lagalega — sem hún gerir. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson misskilur mig ef hann heldur að ég sé á annarri skoðun. Ég átta mig á dómum Hæstaréttar, þekki þá ágætlega þegar kemur að þessum tveimur greinum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir umræðuna sem ég þakka, ekki síst þeim sem hér hafa verið ósammála flutningsmönnum, en mér finnst rétt að tiltaka nokkur atriði stuttlega. Í fyrsta lagi eru það ekki rök að einhver löggjöf eigi sér sögulegar rætur. Það eru ekki slæm rök, það eru ekki góð rök heldur eru það ekki rök. Það eru að sjálfsögðu sögulegar forsendur fyrir þeirri lagasetningu. Það þýðir ekki sjálfkrafa að hún sé góð. Hér spyrjum við ekki að því hvort löggjöf hafi einhvern tímann verið góð, við spyrjum hvort hún sé það í dag miðað við núverandi aðstæður. Kannski er einhver heimspekilegur munur á því hvort við lítum til hins gamla eða nýja en það er samtal sem ég myndi frekar vilja eiga yfir kaffibolla eða bjór en í pontu Alþingis. Mér þykir trúarleg umræða ekki við hæfi í pontu Alþingis og það er meðal ástæðnanna fyrir því að ég er á móti 62. gr. stjórnarskrárinnar og aðhyllist trúfrelsi og jafnræði fyrir lögum án tillits til trúarsannfæringar.

Mig langar að nefna að hv. þm. Birgir Þórarinsson fór yfir hluta af greinargerð þar sem er sagt að trú- og lífsskoðunarfélög séu í eðli sínu umdeild og stutt geti verið í hatursfulla orðræðu. Hv. þingmaður gagnrýndi þetta aðeins og bar það saman við það ef þarna stæði t.d. stjórnmálasamtök eða Píratar eða eitthvað því um líkt. Ég vil segja við hv. þingmann, þótt ég sé ekkert sérstaklega að reyna að særa hann hingað upp í andsvar, að mér finnst það lýsa punktinum nákvæmlega. Ég myndi aldrei styðja lög sem gæfu Pírötum eða Sjálfstæðisflokknum og hvað þá Miðflokknum einhver sérstök forréttindi sem stjórnmálaflokkur umfram aðra stjórnarflokka vegna þess að stjórnmálaflokkar eru í eðli sínu umdeildir og stutt er í hatursfulla orðræðu. Mér þykir sá punktur því einungis undirstrika nauðsyn þessa frumvarps.

Mig langar að þakka hv. 2. þm. Suðvest., Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir athugasemdir hennar í sambandi við gatnagerðargjaldið. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég byrjaði að hlusta á það fannst mér það ekki sérlega áhugavert, eða taldi að mér myndi ekki finnast það, en það er mjög áhugavert og öll umfjöllun hv. þingmanns um heimildir sveitarfélaga til að haga skattlagningu öðruvísi en lög kveða á um er mjög áhugaverð. Ég ætla ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en mér finnst það vera ein góð rök fyrir því að samþykkja þetta frumvarp og vera ekki með einhverjar óljósar heimildir eða heimildir sem búa til mótsagnakennt ástand, myndi ég segja.

Það vekur athygli mína að sumir hv. þingmenn sem eru á móti þessu máli — kannski ekki allir þeirra enda hægt að tína til einhverjar ástæður til að vera á móti þessu máli — og sem hafa talað hérna fyrir ójafnræðinu tala óafvitandi, hygg ég, inn í þann samfélagslega núning sem er fjallað um í greinargerðinni. Hann er sá að Reykjavíkurborg ákveður að gefa Félagi múslima á Íslandi lóð. Umræðan sem verður í kjölfarið er að hluta til um það hvort Reykjavíkurborg hafi heimild til þess samkvæmt lögum. Það er lagatæknileg umræða sem er alveg þess virði að taka og einhvers staðar kemur niðurstaða í það. Segjum að dómstólar myndu dæma á þann veg sem væri málflutningi hv. þm. Birgis Þórarinssonar í vil, gefum okkur það. Þá kemur samt líka upp umræða um réttmæti þess að mismuna fólki á grundvelli trúarskoðana. Umræðan um moskuna og byggingu hennar snerist ekki að mestu um þá lagatæknilegu spurningu hvort Reykjavík væri þetta heimilt, þótt eflaust sé það helsta hugðarefni þeirra tilteknu hv. þingmanna sem sitja í þessum sal. Umræðan snerist um það hvernig ætti að fara með múslima og hvort þeir mættu byggja mosku. Hér var stungið upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þeir mættu byggja mosku. Það væri svolítið eins og að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort einhverjir ættu skilið sanngjörn réttarhöld eða að fá njóta tjáningarfrelsis, algerlega fráleit hugmynd. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að það sé önnur umræða, miðað við það sem hann hefur kannski mestan áhuga á sem er lagatæknilega spurningin. Gott og vel. En þannig var umræðan og hún var bein afleiðing þess að þetta ákvæði var til staðar og reynt var að beita því út frá jafnræðissjónarmiðum. Það er það sem ég vil undirstrika í því sem er vonandi lokaræðan í kvöld um þetta mál. Það var viðleitni til þess að gæta jafnræðis sem olli vandanum. Er það eðlilegt, virðulegi forseti? Ég segi nei, það er ekki eðlilegt. Viðleitni til að gæta jafnræðis á að vera rétta leiðin. Ef lögin eru þannig að það er ekki rétta leiðin eigum við að breyta lögum, nánar tiltekið á þann hátt sem hér er lagt til.