Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:54]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar hv. þingmanns til Ólafs Ísleifssonar áðan, og spurningin var sú hvort um væri að ræða brot á jafnræðisreglunni ef ákvæði 62. gr. væri ekki í stjórnarskrá: Nú veit ég ekki hvort þingmaðurinn hefur kynnt sér þá dóma sem um þetta hafa gengið. Það hefur reynt á þetta fyrir dómi og líka fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem þjóðkirkjur, ríkiskirkjur eða hvað menn vilja kalla það, hafa fengið ívilnanir í lögum umfram önnur trúfélög. Þetta snýst ekkert um 62. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta snýst bara um það hvort heimilt sé að ívilna samkvæmt lögum. Það er auðvitað heimilt og niðurstaðan er sú að það sé heimilt og það á auðvitað sérstaklega við þegar sá sem fær einhvers konar ívilnun eða stuðning hefur sérstakar skyldur lögum samkvæmt. Það er kjarni máls í þessu. Svo er annar misskilningur sem hefur verið hér í umræðunni. Ég get alveg skilið einhverja afstöðu gegn því að kirkjan fái endurgjaldslaust lóð. En það er líka misskilningur í umræðunni að hverju sveitarfélagi, og hvaða sveitarfélagi sem er, sé skylt að afhenda kirkju endurgjaldslaust lóð. Það er auðvitað skipulagsmál. Sveitarfélag getur ákveðið að hafa ekki kirkju. En sveitarfélög vilja hafa kirkju vegna þess að hún er að þjónusta sveitarfélagið og það er lykilþjónusta, sérstaklega í minni sveitarfélögum. Þess vegna er það mjög eðlilegt að kirkjan fái þar endurgjaldslaust lóð, vegna þess að það eru hagsmunir sveitarfélagsins. Það er kjarni málsins og það er svo mikilvægt að horfa á þetta út frá því. Þetta er ekki spurning um eignaupptöku, eignarnám eða neitt slíkt. Ég vildi bara koma þessu að, hv. þingmaður.