150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði engum þræði þarna í lokin, en látum það liggja á milli hluta. Það sem ég er bara að segja, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, er að ríkisvaldið, löggjafinn, ívilnar ýmsum félagasamtökum sem sum fá greiðslu af fjárlögum en önnur ekki sem eru í sams konar starfsemi. Það þurfa að vera einhver sérstök sjónarmið að baki. Þau sjónarmið sem eru að baki hér í kringum þjóðkirkjuna sem hefur verið hluti af þessu samfélagi og sérstök lög gilda um eru að hún hefur skyldur umfram önnur trúfélög. Ívilnun af því tagi sem þetta mál snýst um getur talist eðlileg. Ég get alveg skilið að einhver sé á móti því. En menn mega ekki rugla því saman og koma fram með 65. gr. Það er búið að láta reyna á það allt. Það er bara niðurstaða, það er afgreitt og það á ekki að vera að tala um það. Við eigum bara að tala hér um það að menn séu á móti því að kirkjan sé yfir höfuð studd þrátt fyrir að hún hafi skyldur samkvæmt lögum eða bara afnema lögin um þjóðkirkjuna og allar skyldur sem á hana eru settar (HHG: Já.) — byrjið þið þar, hv. þingmaður. Ekki byrja alltaf á öfugum enda. Þið byrjið alltaf á öfugum enda í öllu sem þið gerið og það er ykkar vandamál. En þið eruð svo upptekin af þessu, þið eruð svo ótrúlega upptekin af því að reyna að knésetja þessa kirkju með einum eða öðrum hætti, veikja eins og þið getið, að þið sjáist ekki fyrir og byrjið alltaf á öfugum enda. En gott og vel. Menn mega hafa hvaða skoðun sem er á kirkjunni mín vegna en byrjum á byrjuninni.