150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna.

52. mál
[19:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir framsöguna og ágæta tillögu sem ég styð heils hugar. Það er ánægjulegt að hún skuli koma fram á þessum tímapunkti þar sem Sameinuðu þjóðirnar fagna á þessu ári 75 ára afmæli. Ég held að það væri mjög vel til fundið að Alþingi samþykkti tillöguna og fylgdi þessu máli eftir því að það er svo sannarlega nauðsynlegt. Það er líka nauðsynlegt að minnast afreka Sameinuðu þjóðanna frá því að þau voru stofnuð 1945 og auk þess er rétt að læra af þeim mistökum sem stofnunin hefur gert. Þá er kannski nærtækast að nefna málefni Bosníu en margt hefur breyst á þeim 75 árum frá því að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar með 51 aðildarríki en í dag eru löndin 193. Það er sannarlega nauðsynlegt að fara í endurbætur á starfsemi Sameinuðu þjóðanna því að margt hefur breyst á þessum tíma og gríðarleg fjölgun ríkja átt sér stað á þessu tímabili en samt hafa hlutir eins og t.d. öryggisráðið breyst sáralítið. Þess vegna er nauðsynlegt að fram fari endurbætur og aukið lýðræði innan þessarar ágætu stofnunar.

Það sem er kannski brýnast að mínu mati í þessum efnum er að tekið verði á öryggisráðinu og það fært til nútímalegra horfs. Þau ríki sem sitja í öryggisráðinu njóta því miður ákveðinna forréttinda sem eru úrelt að mínu mati. Þetta eru fáar þjóðir og hafa lengi átt sæti í öryggisráðinu. Við höfum séð neikvæðar afleiðingar þess, eins og t.d. bara hvað varðar neitunarvaldið, þegar ríki hafa beitt neitunarvaldinu óspart í mjög mikilvægum málum sem hafa þegar upp er staðið bitnað á saklausum borgurum í stríðshrjáðum löndum. Nærtækast er að nefna málefni Sýrlands þar sem Rússar hafa beitt neitunarvaldi allt að 12 sinnum. Gerð hefur verið krafa innan ráðsins um rannsókn á efnavopnaárásum sem forseti landsins hefur beitt gegn eigin þjóð og þeim hörmungum sem hafa fylgt því, en innan ráðsins hefur ítrekað verið fellt að hefja rannsókn á þeim málum. Þetta eina dæmi sýnir hversu nauðsynlegt það er að fara í endurbætur á þessari ágætu stofnun og auka lýðræðið innan hennar. Þessi tillaga er mjög nauðsynleg að mínu mati og góð og það væri til mikillar fyrirmyndar að við Íslendingar samþykktu slíka tillögu og kæmum henni á framfæri innan Sameinuðu þjóðanna, að þetta væri okkar framlag í tilefni 75 ára afmælisins.

Sameinuðu þjóðirnar eru mjög mikilvægar. Þær eru mikilvægari en margan grunar eins og utanríkisráðherra hefur m.a. sagt. Það kom fram á fundi sem utanríkisráðherra átti með aðalritara Sameinuðu þjóðanna í heimsókn hans að Ísland gegndi mikilvægu hlutverki innan Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að við eigum að reyna að auka áhrif okkar þar. Við njótum á alþjóðavettvangi trausts, við erum herlaus þjóð og við erum þjóð án vopnaframleiðslu. Þetta hefur verulega mikið að segja þegar kemur að t.d. friðarumleitunum. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að við höfum heilmikil tækifæri í þeim efnum sem við eigum að nýta okkur. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur staðfest að Ísland njóti víðtæks trausts sem er afar ánægjulegt.

Ég fór ásamt hv. þm. Smára McCarthy einnig til New York á haustmánuðum þar sem við heimsóttum ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og kynntum okkur það ágæta starf sem þar fer fram. Ég hef auk þess sjálfur starfað hjá Sameinuðu þjóðunum við flóttamannahjálp í Miðausturlöndum og veit hversu mikilvæg stofnun þetta er en maður hefur hins vegar séð líka með eigin augum að það er nauðsynlegt að fara í endurbætur. Þess vegna fagna ég mjög slíkum samtökum, samstarfsvettvangi þingmanna og frjálsra félagasamtaka, sem vinna að því markmiði á heimsvísu að auka lýðræðið innan Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru samtök sem njóta góðs stuðnings og sjálfsagt að styðja við bakið á því sem þau hafa ályktað í þessum efnum.

Ég verð að segja að því miður er nauðsynlegt að fara í endurbætur á fleiri sviðum innan Sameinuðu þjóðanna, t.d. á fjármálasviðinu. Þegar kemur að mannréttindamálum og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna er nauðsynlegt að fara í uppstokkun á því. Síðan höfum við, eins og við þekkjum, framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Við Íslendingar þekkjum það því að við buðum okkur fram til setu í ráðinu á sínum tíma en náðum ekki árangri þar. Ég þekki það ferli svolítið vel, ég kynnti mér það á sínum tíma þegar ég var í námi í Bandaríkjunum. Það getur verið mjög kostnaðarsamt fyrir ríki að bjóða sig fram til setu í öryggisráðinu og ýmsum leiðum er beitt til að ná þar kjöri sem ég vil meina að séu vafasamar. Það er nokkuð sem er nauðsynlegt að breyta og ég hvet þessi ágætu þingmannasamtök til að skoða nánar hvernig að málum er staðið þegar kemur að framboði til öryggisráðsins. Það kom mér verulega á óvart að ríki eyddu miklum fjármunum í að bjóða sig fram og þeim fjármunum tel ég að væri betur varið í ýmsa flóttamannahjálp og til bágstaddra og þeirra sem eru á stríðshrjáðum svæðum en að eyða í kosningabaráttu. Þetta á að heyra sögunni til þannig að það þarf að endurbæta allt það kerfi sem lýtur að öryggisráðinu.

Það er ákaflega mikilvægt. Þetta hefur verið rætt í mörg ár og eftir 1990 kom svolítill skriður á þetta. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna á þeim tíma, Ban Ki-moon, beitti sér fyrir þessu en því miður er þetta allt mjög þungt í vöfum. Ástæðan er að hluta til sú að þau ríki sem hafa þarna mikið vald eins og í öryggisráðinu sem lýtur að neitunarvaldinu, eins og ég kom inn á áðan, eru fyrst og fremst að verja sína hagsmuni. Það er óeðlilegt þegar við horfum upp á hörmungar eins og í Sýrlandi að ríki geti beitt neitunarvaldi, einfaldlega vegna þess að það þjónar t.d. ekki þeirra hagsmunum að efnavopnaárásir séu rannsakaðar. Þetta er hræðileg afstaða og með ólíkindum að þetta skuli enn vera við lýði.

Þess vegna tel ég afar brýnt að við beitum okkur fyrir því á þessum vettvangi og núna í tilefni 75 ára afmælis á þessu ári að rödd okkar heyrist, að við tölum fyrir endurbótum á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og auknu lýðræði og efla þá lýðræðislegu aðkomu sem felst m.a. í þessari tillögu sem ég fagna eins og ég segi og vona að fái hér brautargengi.