150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

staðan í Miðausturlöndum.

[10:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Heimsmyndin hefur breyst töluvert frá því sem okkur fannst hún a.m.k. vera þegar við einbeittum okkur að baráttu vestrænna ríkja og austantjaldsríkja. Undanfarið hefur borið mikið á umræðu um Miðausturlönd og þátttöku stórveldanna þar, sér í lagi Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Þegar Trump kemur inn á sviðið breytist margt og hefur kannski sett okkur bandamenn Bandaríkjanna í erfiða stöðu. Hann segir eitt í dag og annað á morgun sem gerir það að verkum að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki verður miklu minni en ella, en það er nú kannski eitt af því sem er mikilvægast í alþjóðasamfélaginu.

Utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar í gær til að ræða málefni Írans og Miðausturlanda og mjög margt áhugavert sem kom fram í svörum hans þar, sem ég get að sjálfsögðu ekki haft eftir hérna en sumt af því finnst mér að eigi erindi inn í þennan sal og jafnvel til allrar þjóðarinnar. Það vekur t.d. nokkra athygli að íslensk stjórnvöld hafa ekkert tjáð sig um lögmæti aftöku Bandaríkjanna á næstvaldamesta manni Írans. Án þess að ég ætli að bera blak af þeim manni þá þekkjum við að minnstu skref í þessu flókna valdatafli geta leitt af sér keðjuverkandi áhrif. Því hlýt ég að spyrja ráðherra beint og bið hann að svara því mjög skýrt af því að það skiptir máli: Telur ráðherra að um lögmæta árás hafi verið að ræða?