150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

staðan í Miðausturlöndum.

[10:33]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Af því að hv. þingmaður vísaði í fund utanríkismálanefndar í gær þá er það mín skoðun að það sé afskaplega mikilvægt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar segi við þjóðina það sem þeir segja á þeim fundum, því að ég held að það eigi fullt erindi til þjóðarinnar. Hér erum við að tala um alvörumál á þessum vettvangi og við Íslendingar höfum ávallt verið í hópi með vestrænum þjóðum, erum í Atlantshafsbandalaginu og við skipum okkur í hóp með þeim þjóðum, erum í Evrópska efnahagssvæðinu og EFTA o.s.frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn tali skýrt um það hver stefna þeirra flokka er þegar kemur að þeim málum. Ég held að kjósendur eigi rétt á því.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns, og hann segist ekki bera blak af þeim manni sem lét lífið í þessari drónaárás, um viðbrögð okkar fór hv. þingmaður ekki rétt með það að við hefðum ekki verið með nein viðbrögð. Þau hafa algerlega verið í anda þess sem við sjáum hjá vina- og bandalagsþjóðum okkar. Þá er ég sérstaklega að vísa til Norðurlandanna og ég get sömuleiðis vísað til annarra Evrópuþjóða. Þar höfum við verið og þar ætlum við að halda áfram að vera.