150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

miðhálendisþjóðgarður.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við þingmenn höfum orðið varir við að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fer nú um landið og kynnir sitt stærsta og mikilvægasta mál, miðhálendisþjóðgarð. Á sama tíma sjáum við að andstaða, ekki síst meðal stjórnarflokkanna eða stuðningsmanna þeirra og jafnvel þingmanna stjórnarflokkanna, er töluvert mikil. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherrann sé svolítið einn á báti með þetta mál sitt, hvort það geti verið að stuðningur við þennan miðhálendisþjóðgarð og það sem honum fylgir, væntanlega þjóðgarðastofnun líka, sé ekki til staðar. Getur verið að málið eins og það kom frá þessum vinnuhópi eða starfshópi sé þannig búið að ekki nokkur maður geti sætt sig við það? Ég spyr því ráðherrann hvort hann hafi í raun trú á því að málið fari í gegnum þingið á þeim nótum sem hann hefur lagt upp með. Mun ráðherrann gera skýlausa kröfu um að miðhálendisþjóðgarður og þjóðgarðastofnun verði samþykkt samhliða? Er það rangt mat hjá mér að ráðherrann leggi mikið undir þegar kemur að þessu stóra máli, að hans mati í það minnsta? Telur ráðherrann að unnt sé að mæta þeirri gagnrýni sem við höfum þegar heyrt frá þingmönnum stjórnarflokkanna og jafnvel einnig ráðherrum stjórnarflokkanna þegar kemur að þessu máli? Er það þannig að ráðherrann telji að búið sé að geirnegla það í samkomulagi stjórnarflokkanna að málið klárist nú á þessu þingi? Og ef ekki á þessu þingi hvenær þá?

Það er mjög mikilvægt að við höfum sýn ráðherrans á það hvort ríkisstjórnin sé virkilega að fara að klára þetta mál og þá stjórnarflokkarnir. Það er líka ágætt að vita hversu mikið ráðherrann leggur upp úr því að þetta mál klárist. Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér þegar ég sé að stjórnarliðar eru að hlaupa frá málinu svo að minnir á það þegar ákveðin dýrategund hleypur í allar áttir og reynir að forða sér. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra þessara spurninga.