150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

miðhálendisþjóðgarður.

[10:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það eru ýmsar vangaveltur sem koma fram í máli hv. þingmanns og kannski auðveldast að svara þeim almennt þannig til að ég hyggst leggja málið fram á vorþingi. Hann nefndi tvö stjórnarmál sem bæði eru á þingmálaskrá, hálendisþjóðgarðinn og eins um þjóðgarðastofnun, og ég mun leggja þau fram á svipuðum tíma.

Það er gaman að velta þeim atriðum upp sem þingmaðurinn nefnir. Ég vil nefna sérstaklega að þetta er náttúrlega eitt af þeim málum sem eru í stjórnarsáttmála. Það var skipuð þverpólitísk nefnd um þetta mál einmitt til þess að draga að sem flestar raddir úr pólitíkinni. Það vakti athygli að það var flokksbróðir hv. þingmanns sem taldi sig ekki geta skrifað undir þá skýrslu sem nefndin skilaði en allir aðrir flokkar á þingi gerðu það. Það segir mér að það er samstaða um málið hér á þingi. Það er samstaða um að koma því áfram. Þetta er stórt og mjög mikilvægt mál. Þetta er mál sem mun auka samkeppnishæfi Íslands. Þetta er mál sem mun auka störf úti í byggðunum. Þetta er mál sem mun efla ferðaþjónustu úti um allt land og þetta er mál sem mun auka náttúruvernd í landinu, ekki síst að vernda óbyggð víðerni, þannig að þetta er vissulega mál sem sá sem hér stendur leggur mikið upp úr. En eins og ég segi legg ég áherslu á að þetta komi til umræðu núna á vorþingi og auðvitað vonast til þess að það klárist á vorþingi. En það er náttúrlega bara þingið sem tekur þessi mál upp þegar þau koma þar inn.