150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

miðhálendisþjóðgarður.

[10:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Já, það er rétt að fulltrúi okkar í starfshópnum eða nefndinni sem fjallaði um þessar hugmyndir treysti sér ekki til að skrifa undir þessa skýrslu og eins og ráðherra bendir á skrifuðu allir aðrir undir hana. Lítur ráðherra á málið þannig að með því að skrifa undir skýrsluna séu allir aðrir, þar á meðal stjórnarflokkarnir, búnir að skuldbinda sig til að klára málið á þeim nótum sem skýrslan segir? Ég skil ekki orð ráðherra öðruvísi en hann telji að um málið ríki samkomulag, það sé samkomulag um að þetta mál klárist. Það fer ekki alveg saman við það sem mér heyrist koma frá öðrum stjórnarliðum eða í hinum stjórnarflokkunum. Þess vegna spyr ég ráðherra aftur að því hvort hann hafi tryggingu fyrir því að þetta mál klárist. Það er vitanlega mjög freistandi að komast að því, og ráðherra ræður hvort hann svarar því, hvað ráðherra leggur mikið upp úr þessu máli, hvort hann sé hugsanlega tilbúinn til að fjárfesta svo mikið í málinu að ef hann fái það ekki í gegn muni hann víkja úr ríkisstjórn.