150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stofnun hálendisþjóðgarðs og skipulagsvald sveitarfélaga.

[10:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja hálendisþjóðgarður okkar allra en ekki bara ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður sat nú í nefndinni góðu sem skilaði af sér þannig að ég vil meina að þetta sé okkar allra, og að sjálfsögðu ekki bara okkar hér á þingi heldur allra landsmanna. Það er rétt að ég hyggst leggja þrjú mál saman inn á þingið, svona nokkurn veginn á sama tíma, hálendisþjóðgarðinn, þjóðgarðastofnun og rammaáætlun, einfaldlega vegna þess að þau tengjast öll órjúfanlegum böndum, líkt og þingmaðurinn kom svo ágætlega inn á. Ég vonast til þess að við náum að vinna hratt og vel úr þeim athugasemdum sem komið hafa fram og að þetta verði lagt fram nú í lok febrúar eins og áætlunin er. Við skulum bara spyrja að leikslokum með það hvort það verður 28. febrúar eða hvort það dregst eitthvað fram í mars. En 28. febrúar — ég held að við verðum að gefa okkur tíma hið minnsta þangað til og við vinnum að því hörðum höndum í ráðuneytinu. Vonandi getum við þingmaður rætt þetta mál á þingi sem allra fyrst.