150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

þriðja valfrjálsa bókunin við barnasáttmálann.

[11:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þingið getur auðvitað ályktað um allt sem það vill álykta um, það er ekki ráðherra sem stýrir því. Þriðja valfrjálsa bókunin er mikilvæg og hún er góð en ég held hins vegar að við þurfum að skoða þetta í víðara samhengi. Það sem við erum að vinna að núna er að skoða í víðara samhengi hvernig við ætlum að tryggja ekki bara að börn geti leitað réttar síns og skotið málum til barnaréttarnefndarinnar heldur hvernig við getum tryggt að kerfislega muni stjórnkerfið okkar, bæði sveitarstjórnarstig og landsstjórn, tryggja aukið samráð við börn og ungmenni. Þessi þriðja valfrjálsa bókun er í rauninni bara einn hluti af þeirri vinnu sem við erum með í gangi og það kann vel að vera að skynsamlegast sé þegar þetta kemur allt saman fram og verður kynnt að koma með það fyrir þingið og fá samþykki allra flokka til þess að þetta mál lifi. Það er það sem þessi málaflokkur á skilið, að við hefjum hann upp úr hinum daglegu pólitísku skotgröfum. Þessi mál verða að lifa á milli kjörtímabila og á milli ríkisstjórna. En þessi ríkisstjórn ætlar reyndar að halda áfram (Forseti hringir.) næsta kjörtímabil þannig að það skiptir ekki máli.