150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

orð utanríkisráðherra á nefndarfundi og í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:07]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki beinlínis út af þessu, en ég vil vekja athygli á því að það er mjög auðvelt að eiga orðaskipti við ráðherra, ekki bara í óundirbúnum fyrirspurnum heldur í sérstakri umræðu og það væri ekki slæmt ef það yrði gert. Ég vil hvetja alla þá sem eru hér að tala um það sem gerist á nefndarfundum eða annað og af því að hv. þingmaður vísaði væntanlega til ummæla minna þá eru þau til skrifleg, það er hægt að lesa þau aftur upp á öðrum nefndarfundum. Ég vil samt hvetja hv. þingmenn til að ræða utanríkismál meira í þingsalnum, m.a. í sérstakri umræðu, og vonast til að það verði tekið vel í þá áskorun. Svo er hægt að gera það í fjölmiðlum. Ég held að það sé sömuleiðis einstaklega góð hugmynd. Þetta er bara svona almenn hvatning í tengslum við fundarstjórn forseta.