150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

fiskveiðistjórnarkerfið.

[11:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna. Hann beindi til mín þremur spurningum sem ég tel rétt að fara yfir á þeim mínútum sem eru til ráðstöfunar. Í fyrsta lagi varðandi spurninguna og innlegg hans: Ef við ætlum að fara að bera saman verð á veiðiheimildum erlendis við það sem útgerðin er að greiða hér heima þá verðum við að sjálfsögðu að vera í stakk búin til að geta borið saman tekjur og alla kostnaðarliði, skatta og gjöld o.s.frv., sem útgerð myndi greiða í hvoru landi um sig. Við höfum ekki upplýsingar um verð eða verðmyndun eða kostnaðarliði á sjávarafurðum erlendis, á erlendum mörkuðum. Þar liggur hundurinn grafinn, þær upplýsingar liggja ekki fyrir, en hins vegar höfum við mjög greinargóðar opinberar upplýsingar um afkomu útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi. Engu að síður leyfa þingmenn sér að fullyrða að menn séu tilbúnir til að greiða sambærilegt verð í sams konar umhverfi og á Íslandi. Við erum núna, eins og ég hef greint frá opinberlega, að leggja drög að því og það er í vinnslu að gera samanburð á uppsjávarveiðum hér við Norður-Atlantshaf og ég hefði talið að það væru fyrstu skrefin í því að nálgast þá hugmynd sem hv. þingmaður er að nefna.

Við breyttum sömuleiðis löggjöfinni á árinu 2008 varðandi veiðigjaldið þar sem mælt er fyrir um að gjaldhlutfall sé 33% af reiknistofni hvers nytjastofns og reiknistofninn, eins og þingmönnum má vera kunnugt, er allar tekjur af veiðum að frádregnum kostnaði, bæði breytilegum og föstum. Ég vil nefna það að þessi 33% álagning bætist við önnur gjöld, svo sem skatta sem sjávarútvegurinn greiðir, kolefnisgjald, tekjuskatt, aflagjald, hafnargjöld o.fl. Já, að teknu tilliti til þess tel ég að þjóðin njóti arðsemi af verðmæti auðlindarinnar. Við getum tekist á um það hvort 33% eigi að vera hærri tala eða lægri og ég veit að það eru skiptar skoðanir um það, en þingið náði samkomulagi um það á árinu 2018 að þetta væru 33%.

Ég vil nefna það í tengslum við þá breytingu sem þarna var gerð að þá kom til umræðu hvort sérstök tekjuskattlagning á útgerðaraðila gæti komið í stað svona aðferðar að hluta í það minnsta. Um það náðist ekki samkomulag að vinna til enda og raunar var það tíminn fyrst og fremst sem stóð fyrir þrifum í því.

Ég ætla að nefna sömuleiðis það sem hv. þingmaður nefndi varðandi spurningu tvö um skilgreiningu á tengdum aðilum. Sú vinna er í ferli. Frestur til að skila athugasemdum við þær tillögur sem liggja fyrir hjá verkefnisstjórninni rennur út næstu daga og þær verða grunnur þeirrar tillögu sem ég kem hér inn með í frumvarpsformi.

Varðandi umræðuna um úthlutun veiðiheimilda, með hvaða hætti það er gert, vil ég fyrst af öllu segja að stærsta áskorunin og meginverkefni íslenskra stjórnvalda og þeirra fyrirtækja sem eru í útgerð og fiskvinnslu verður samkeppnishæfi þeirra á erlendum mörkuðum. Jafnframt þarf að huga að því eilífðarverkefni sem alltaf er, það er vissulega eilífðarverkefni, þ.e. byggðaáhrif og samþjöppun veiðiheimilda. Þegar hv. þingmaður nefnir hvað Sjálfstæðismenn sjái á móti frjálsu uppboði á aflaheimildum eða eðlilegum og sanngjörnum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu þá höfum við Sjálfstæðismenn aldrei sett okkur upp á móti eðlilegum og sanngjörnum breytingum. Við erum hins vegar þannig gerð að við höfum skiptar skoðanir á því hvað við teljum eðlilegt og sanngjarnt en það er ekki hægt að dæma alla út frá eigin sannfæringu um að þeim gangi eitthvað illt til. Það er ekkert þannig. Við höfum einfaldlega skiptar skoðanir í þeim efnum. Dæmin um uppboð á aflahlutdeildum erlendis eru ekki mörg. Færeyjar eru nýjasta dæmið. Þar hefur verið fallið frá þessu.

Ég vil þó nefna hérna varðandi hugmyndir um frjálsa uppboðið að hugmyndirnar virðast ekki neitt sérlega frjálsar því að talsmenn slíkrar breytingar hafa ítrekað talað fyrir ýmsum pólitískum inngripum í þetta kerfi; koma í veg fyrir óæskilega samþjöppun, tryggja dreifingu aflaheimilda nánast jafnt yfir landið, tryggja nýliðun o.s.frv. Hvernig mun þessi uppboðsleið líta út þegar tillit hefur verið tekið til pólitískra forsendna sem sjaldnast eru ræddar (Forseti hringir.) eða settar fram? Ég held að það væri mjög jákvætt fyrir þessa umræðu að fá svör og fulla útfærslu (Forseti hringir.) á þeim hindrunum sem talsmenn slíkra hugmynda vilja hafa á því „frjálsa kerfi“ sem þeir vilja setja upp.